137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Ég tel samt afar mikilvægt að þegar verið er að leggja fram tölur og þá kannski óþægilegar staðreyndir um að verðlagsáhrifin verði töluverð á heimili og skuldabagga heimilanna, þá eigi það einfaldlega að koma fram í þessari skýrslu. Það vantar og ég vona að það sé þá á hreinu að við erum að tala um hækkun á lánum heimilanna um einhverja 12, 13 milljarða í staðinn fyrir 8 eða 4 milljarða, eins og vísitöluáhrifin segja um þessi 0,25%.

Ég hef örstuttan tíma og mig langaði bara að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í vegaframkvæmdirnar sem koma hér fram, að í töflunni á bls. 11, annars vegar um 3,5 milljarða og hins vegar 925 milljónir, hvaða vegaframkvæmdir er um að ræða sérstaklega?