137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni ágæta yfirferð yfir þær tillögur sem hér liggja fyrir. Mig langar þó til þess að spyrja hann um tvennt.

Í fyrsta lagi unnum við saman í ríkisstjórn frá árinu 2007 um 18 mánaða skeið og skiluðum fjárlögum inn í árið 2008. Mikil barátta var í þeirri ríkisstjórn um einmitt bætt kjör fyrir aldraða og öryrkja og ég held að á því tímabili hafi okkur tekist að bæta í þann pott um 15 milljörðum. Strax eftir bankahrunið stóðum við saman að því, við Kristján, að draga saman þar um nokkra milljarða og enn er dreginn til baka 1,8 milljarðar. Mig langar að heyra í hv. þingmanni hvort það sé ekki rétt metið hjá mér og hvort hann geti ekki staðfest að um verulega viðbót sé að ræða hjá öldruðum og öryrkjum frá því sem var í upphafi kjörtímabils Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007 þrátt fyrir þann niðurskurð sem boðaður er á þessu ári.

Í öðru lagi þekkjum við það úr fjárlaganefndarvinnu að það hefur alltaf flætt fjármagn — menn hafa átt inneignir um áramót og eins fyrir fjárlagaárið í ár var verulegur niðurskurður áætlaður, þ.e. það var talað um að fara niður um 40–45 milljarða í fjárlagagerðinni frá fjárlögum þess tíma. Verður það ekki að teljast verulega gott skref ef okkur tekst að nýta ekki eldri heimildir, fara ekki með fjárheimildir yfir áramót, að ekki verði heimilað að nýta þá 20 milljarða sem eru inneignir í sambandi við lausnina á þessu ári?

Hins vegar ef okkur tekst að standa við fjárlög, því að á undanförnum tveimur, þremur árum hafa menn farið 20–30 milljarða fram úr fjárlögum, hvort það sé ekki myndarlegt byrjunarskref að koma þessu hvoru tveggja í lag þó að menn horfi ekki bara á þessa 1,8 milljarða sem þarna kemur til viðbótar.