137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Taki aðilar vinnumarkaðarins tillögum ríkisstjórnarinnar og því frumvarpi sem hér er rætt ekkert sérstaklega fagnandi, sem ég er svo sem ekkert hissa á því að það er enginn gleðiboðskapur á ferðinni í neinum skilningi, óumflýjanlegar aðgerðir engu að síður, óttast ég að þeir taki alls ekki betur í tillögu Sjálfstæðisflokksins um þá grundvallarbreytingu varðandi skattlagningu lífeyristekna sem þar er lögð til. (Gripið fram í.) Ég býst við að þeir yrðu ekki síður súrir ef sú ráðstöfun yrði lögð á borðið. Við höfum skoðað þá hluti og ég hef að sjálfsögðu skoðað tillögu Sjálfstæðisflokksins, mér finnst gott að Sjálfstæðisflokkurinn leggur sína hluti fram og fagna því. Við höfum skoðað möguleikann á séreignarsparnaðinum varðandi lífeyristekjurnar, hvort mögulega væri hægt að ná einhverju samkomulagi um að menn neituðu sér um það á einhverju tímabili að bæta ofan á grunnlífeyrissparnaðinn þeim séreignarsparnaði sem nú er gert með skattfrelsi. Það mundi þá koma fólki til góða í auknum ráðstöfunartekjum og létta útgjöldum af ríki, sveitarfélögum og atvinnurekendum hvað varðar mótframlög. Það er ekki mikil hrifning á slíkum hugmyndum. Við höfum skoðað möguleikann á því að lækka einfaldlega iðgjöldin tímabundið, taka 1% út eða eitthvað því um líkt, og ég hef að sjálfsögðu skoðað þá hugmynd að breyta skattlagningaraðferðinni í grundvallaratriðum. Það væri ákaflega freistandi aðgerð til skamms tíma litið og það væri einföld aðgerð til að afla mikilla tekna en til lengri tíma litið er hún að mörgu leyti mjög mikið umhugsunarefni sérstaklega fyrir ríki og sveitarfélög sem eiga í vændum inn í framtíðina vaxandi tekjur með auknum útgreiðslum úr lífeyrissjóðum þar sem inngreiðslur voru skattfrjálsar.

Þegar maður horfir á stöðu ríkissjóðs og þess vegna sveitarfélaganna, á getu þeirra til að axla byrðar nú um stundir og takast á við skuldir og borga þær síðan í framtíðinni eru hinar væntu tekjur þeirra út úr lífeyrissjóðakerfinu (Forseti hringir.) eitt það besta sem þessir aðilar eiga.