137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[12:42]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegur forseti. Í þessu frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra er verið að ræða afleiðingar af 18 ára hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sem réð ferðinni í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem fyrst Alþýðuflokkur, svo Framsóknarflokkur og nú síðast Samfylking tóku þátt í einhverri firrtustu og fáránlegustu valda- og græðgisvæðingu íslensks samfélags sem um getur. Samhliða því tók við tímabil kúgunar framkvæmdarvaldsins gegn Alþingi sem varð að afgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins sem og að hér væri innleitt kerfi þöggunar í stjórnsýslunni þar sem grandvarir embættismenn og starfsmenn voru miskunnarlaust færðir til í starfi eða látnir fara og sumar mikilvægustu stofnanir þjóðarinnar voru annaðhvort lagðar niður eða gerðar algerlega pólitískar. Á þessu tímabili var valtað yfir þingræðið og almenning og Íslendingar meira að segja gerðir að þátttakendum í stríði á erlendri grund í fyrsta sinn í sögunni allt fyrir smávöld fyrir þáverandi samstarfsflokk Sjálfstæðisflokksins.

Einkavinavæðing Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og innleiðing fjármálalöggjafar, sem vantaði í allar þær venjulegu eftirlitsreglur sem allar nágrannaþjóðirnar tóku upp, leiddi til þess að hér varð til fjármálaumhverfi andskotans. Gangsterakapítalismi þar sem flokkseigendafélög Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, nýorðnir eigendur banka með dyggum stuðningi stjórnvalda og embættismannakerfis, fóru af stað í vegferð sem blekkti landsmenn og nágrannalönd okkar með hörmulegum afleiðingum. Hér er við marga að sakast en enn sem komið er er engum fundin sök. Fyrrum ríkisstjórnir hverra sumir ráðherrar sitja hér enn, fyrrum þingmenn sem sumir hverjir sitja hér enn, embættismenn út um allt í stjórnsýslunni sem spiluðu með annaðhvort vegna beinna pólitískra tengsla við viðkomandi stjórnmálaflokk og/eða ráðherra eða vegna einfalds þýlyndis embættismannakerfis hvers hugsun og faglegt sjálfstæði var steindauð.

Síðustu mánuðir þarsíðustu ríkisstjórnar, undir forustu Geirs H. Haardes og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem laug að og blekkti þjóðina frá upphafi árs 2008 og allt fram að hruninu í október og sem fór í mikla blekkingaherferð um nágrannalöndin, eru sennilega verstu dagar íslensks lýðveldis. Nú er verið að súpa seyðið af því og er reyndar með ólíkindum að hér skuli enn vera við völd sumir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar, jafnvel verðlaunaðir með forsætisráðherrastöðu að ekki sé talað um þá þingmenn sem einnig tóku þátt í undirbyggingu hrunsins, annaðhvort beint eða þá standandi á hliðarlínunni hrópandi húrra fyrir sínu liði sem ekki og aldrei var almenningur í landinu. (Utanrrh.: Til dæmis bölvaður utanríkisráðherra.) Fáðu þér nú sæti, hæstv. ráðherra.

Frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum er beint framhald af stefnunni og hugsunarhættinum sem hér hefur alltaf ráðið ríkjum. Sömu embættismenn, sömu stofnanir, sömu ráðuneyti og ráðuneytisstjórar og að sumu leyti sömu ráðherrar og þingmenn og tóku beinan þátt í hrunadansinum og bera ábyrgð á honum, ætla sér nú að taka að sér eitthvað sem þeir sjálfir kalla endurreisn íslensks efnahagslífs og samfélags. Skuldir ríkissjóðs eru gífurlegar, m.a. vegna taps Seðlabanka Íslands sem tapaði um 320 milljörðum á stuttum tíma, að ekki sé talað um allar þær tryggingar á innstæðum og gríðarlegu færslum á fjármunum beint í vasa peningamarkaðsreikningseigenda á fyrstu vikum októbermánaðar, banka sem nú eru ríkisbankar og hafa afskrifað gríðarlegar fjárhæðir íslenskra fyrirtækja sem skráð eru erlendis eða voru, m.a. á Tortólu, og hefur aldrei fengist skýring á hverjir eigendur þeirra eru. Hér er um að ræða sóðaskap Kaupþings sem keypti sér aðgang að ráðherra í gegnum maka hennar og sóðaskapinn í kringum sjóð 9 hjá Glitni hvers stjórnarformaður var þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hér er lengi hægt að telja upp spillingarliðina en mikilvægt er að þeir verði gerðir upp. Endanlegt uppgjör sjóðs 9 hjá Glitni hefur t.d. enn ekki fengist. Hvers vegna? Steininn tók þó úr þegar forsætisráðherrann sjálfur, þáverandi, Geir H. Haarde, gumaði af því í aðdraganda hrunsins að eigendur Landsbankans væru daglegir gestir hans í Stjórnarráðinu.

Þessari ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra er mikill vandi á höndum og starf þeirra er ekki öfundsvert. Ferli þetta sem hafið er með þessu frumvarpi hefst þó að mati Borgarahreyfingarinnar á röngum fæti. Hér hefði þurft að gera að algeru forgangsmáli að sækja fé það sem horfið hefur og óska aðstoðar færustu erlendra sérfræðinga og stofnana til þess og einfaldlega fela þeim verkefnin. Óska þarf eftir niðurfellingu skulda þjóðarinnar og viðurkenna á alþjóðavettvangi afglöp íslenskra stjórnvalda og að hér hafi verið í gangi það sem nágrannaþjóðirnar vita hvort eð er, samspil spilltra stjórnvalda og peningaafla. Þannig og aðeins þannig verður hægt að endurbyggja traust Íslands erlendis og gera Ísland aftur að eðlilegu samfélagi í samfélagi nágrannaþjóðanna. Hér munu og eru fjórflokkarnir eins og venjulega að karpa um keisarans skegg. Milljón hér, milljarður þar, vegur hér og virkjun þar. Það er ekki verið að taka á grundvallarmálunum heldur er verið að einhverju leyti í sömu gömlu hreppapólitíkinni.

Niðurskurður útgjalda og skattahækkanir eru sem áður sagði afleiðing gjaldþrota hugmyndafræði og efnahagsstefnu. Það verður að hafa í huga að hægt er að gera hlutina öðruvísi og með minni sársauka bæði peningalega og siðferðilega gagnvart almenningi í landinu. Hæstv. fjármálaráðherra verður að beita sér fyrir því með meira afgerandi hætti að þeir sem beinlínis bera ábyrgð á skuldunum, þ.e. hinir svo kölluðu útrásarvíkingar, verði dregnir fyrir dóm, eignir þeirra frystar og einfaldlega gerðar upptækar. Borgarahreyfingin er með frumvarp í smíðum sem veitir skilanefndum, slitastjórnum, skiptastjórum og viðskiptaráðherra víðtækar heimildir til þess einfaldlega að ógilda alla grunsamlega fjármálagerninga undanfarinna þriggja ára til að hægt sé með réttlátum hætti að taka á gerendum hrunsins. Niðurskurðar- og skattalækkunarleiðin sem verið er að leggja í með þessu frumvarpi er einfaldlega ekki fær. Til þess eru skuldirnar einfaldlega of miklar. Það verður að viðurkenna strax. Því fyrr því betra.

Á þessum nótum munum við í Borgarahreyfingunni tala gegn þessu og öðrum frumvörpum sem tengd eru þessum málum og hér koma fram. Við teljum að það þurfi að fara fram og hefði þurft að fara fram miklu fyrr, miklu víðtækara og dýpra uppgjör gagnvart fortíðinni og hér þurfi að fara að vinna hlutina með nýjum, faglegri og betri hætti þar sem hagur almennings er alltaf látinn vera í fyrirrúmi en ekki verið að skauta fram hjá einhverjum atriðum sem menn fela sig á bak við og segja að það þurfi t.d. rökstuddan grun til að frysta eigur fólks. Það er búið að taka fjölda fólks í yfirheyrslu vegna hrunsins. Ekki ein einasta króna hefur verið fryst. Fjármagnseigendur á Íslandi virðast enn hér eftir sem hingað til vera eins konar heilagar kýr sem enginn þorir að snerta á og meðan svo er mun aldrei gróa um heilt í þessu samfélagi og sárin verða enn dýpri og verri þegar farið er að brytja niður infrastrúktúr samfélagsins. Þetta má ekki gerast, hæstv. forseti, og ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér í þessu máli með öðrum hætti.