137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[13:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi óska forseta og öðrum konum til hamingju með daginn og okkur í samfélaginu með kvenréttindadaginn 19. júní og hefði náttúrlega átt að óska hæstv. utanríkisráðherra til hamingju með daginn líka en hann er ekki í salnum eins og er.

Við ræðum mál sem fjallar um ráðstafanir í ríkisfjármálum, gríðarlega stórt verkefni sem við höfum fengið í fangið eftir ástand liðinna ára, þar sem við höfum lent í hinu alvarlega bankahruni og í ljós hefur komið að við höfum að einhverju leyti lifað um efni fram og er nú komið að skuldadögum. Það er ekkert sérstakt gleðiefni að þurfa að snúa til baka með fjárveitingar til mikilvægra málaflokka og erfitt að þurfa að takast á við allt að 150 milljarða niðurskurð á næstu 4–5 árum sem kemur að miklu leyti til vegna þess að hér hefur orðið verulegt tekjufall og einnig hafa vaxtaútgjöld íslenska ríkisins vaxið mjög og krefjast þess að við hagræðum í rekstri og finnum nýjar leiðir til að fjármagna okkar rekstur.

Þetta frumvarp fjallar annars vegar um niðurskurð á árinu 2009 og hins vegar tillögur fyrir 2010 og skiptist eins og alltaf á milli tekna, svokallaðra tilfærslna, þ.e. bótakerfið okkar, niðurskurðar í ríkisrekstri og svo niðurskurðar á framkvæmdum og viðhaldi. Þegar verið er að glíma við stórar tölur er fátt sem sleppur þannig að það verður að koma alls staðar við en það er þá hlutverk okkar alþingismanna og þingnefnda og þeirra sem að þessu máli koma að reyna að forgangsraða og reyna að láta þetta lenda sem sanngjarnast á landsmönnum og á ríkisrekstrinum.

Það er full ástæða til að vekja athygli á því að þó að hér séu sýnd árin 2009 og 2010 er auðvitað meira fram undan því að áætlunin miðar við að þörf sér fyrir enn frekari niðurskurð á árinu 2011, þ.e. 43 milljarða til viðbótar við það sem hér er sýnt, og síðan 22 og 11 milljarða á árunum þar á eftir. Þessi niðurskurður leggst hver ofan á annan þannig að það verður að skera dýpra og dýpra þegar reynt er að vinna eftir þessu plani.

Í því plani sem hér hefur verið lagt er miðað við að við reynum að koma okkur sem fyrst út úr skuldunum, þ.e. að reksturinn geti farið að skila greiðslum upp í niðurgreiðslu á lánum og við reynum að losa okkur út úr þessari vaxtabyrði sem er gríðarleg, það er auðvitað óþolandi að vera að borga 80–100 milljarða í vaxtakostnað af ekki stærri rekstri en hér er um að ræða. (Gripið fram í: … að við getum það.) Við getum það gagnstætt því sem sumir segja og ég vil taka það fram að þegar menn eru með svartnættisraus um að íslenska þjóðin ráði ekki við þetta viðfangsefni þá held ég að það sé of í lagt en aftur á móti mun reyna á. Það sem erfiðast er í augnablikinu er að við búum enn þá við það umhverfi að okkur hefur ekki tekist að koma eðlilegu gengi á okkar gjaldmiðla. Við búum við gjaldeyrishöft sem þarf auðvitað að létta af, við búum við það að lánsfé er ekki fáanlegt, við búum við óeðlilega vexti sem þýðir að atvinnulífið gengur í hægagangi eins og er og því mikilvægt að reyna að koma því af stað.

Það sem hér er verið að gera byggir á þeim leiðarljósum og þeim hugmyndum sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Reynt hefur verið að hafa það til hliðsjónar þegar unnið er að þessum niðurskurði að þetta bitni síst á þeim sem minnst mega sín og þá er reynt að láta skatta og annað sem ekki fer almennt á verðlagið lenda á þeim sem hafa heldur meira en aðrir. Það verður svo að dæmast hvort það hefur tekist nægjanlega vel en ég held að óhætt sé að fullyrða að sú viðleitni hefur klárlega verið höfð að leiðarljósi.

Varðandi niðurskurðinn á þessu ári, af því að menn hafa nú þegar bent á að farið sé varlega í sambandi við reksturinn og frekar sé horft til tilfærslnanna, þá tel ég mjög mikilvægt að ítreka það sem kom fram í andsvörum eða umræðunni áðan að stærsta viðfangsefni okkar á þessu ári er að koma meira skikki á ríkisfjármálin frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Þar hefur verið flæði á milli ára, þ.e. menn hafa átt afgangsheimildir og flutt þær á milli ára og haft þær til ráðstöfunar. Um síðustu áramót voru um 20 milljarðar óráðstafaðar heimildir og það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að menn geti ekki notað þær heimildir til að bjarga sér í gegnum þennan fyrsta niðurskurð. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að frysta þennan hluta, skoða hann sérstaklega og láta menn ekki komast upp með það þegar grípa þarf til hagræðingar að það sé þá gert með einhverjum bókhaldslegum varasjóði. Við þurfum að líta á rekstrartölurnar innan ársins og það er það verkefni sem við fengum, að glíma við 20 milljarða niðurskurð í rauntölum, þ.e. í rekstrarstöðu á þessu ári.

Þessu til viðbótar hefur það viðgengist í fjárlagaferli undanfarinna ára að áætlaðar hafa verið til ríkisrekstrarins einhverjar ákveðnar tölur og það hefur viðgengist að menn hafi farið fram úr, aðallega vegna þess að menn hafa haft tekjur til þess og hafa þá leyft stofnunum að fara fram úr. Kannski hafa líka stofnanir í einhverjum tilfellum verið vanáætlaðar og ekki verið tekið á því fyrr en á fjáraukalögum og það hafa verið allt upp í 20–30 milljarðar á ári á þeim tveimur árum sem ég hef setið í fjárlaganefnd sem menn hafa verið að leiðrétta fjárlögin um. Það gengur heldur ekki lengur þannig að við erum að tala um verulega þrengt aðhald, bæði með því að leyfa mönnum ekki að færa umframheimildir yfir á þetta ár og að krefjast þess af rekstrinum að stofnanir haldi sig innan fjárlaga á þessu ári.

Annað sem við lögðum upp með í þessari vinnu, af því að ég hef fengið tækifæri til að koma örlítið að vinnunni, er að menn forðist það, þó að hér sé verið að glíma við prósentutölur í sumum tilfellum og ákveðin ráðuneyti og menn hafi sett ramma sérstaklega fyrir 2010 að vera með niðurskurðarhugmyndir um það að velferðarráðuneytin, heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið, skeri niður um 5% í sínum rekstri, menntamálaráðuneytið 7% og síðan önnur ráðuneyti og stofnanir á vegum ríkisins skeri niður um 10%. Þrátt fyrir þessar prósentutölur er það tekið fram í leiðarljósi sem gefið var út til ráðuneytanna að ekki er ætlast til þess að beitt sé flötum niðurskurði á einstaka stofnanir heldur skoði menn reksturinn, reyni að vera með faglegt mat á því hvað megi helst taka út og reyni að móta sér forgangsröðun í sambandi við niðurskurðinn innan viðkomandi stofnana.

Gefið er út að menn eigi að reyna að verja velferðarverkefnin, reyni að forðast að fara inn á stofnanir þar sem er um að ræða fatlaða eða aldraða. Einnig eru gefin út fyrirmæli um að reyna að hlífa þeim sem lægstu tekjurnar hafa. Síðan eigi að reyna að fara í þær sérgreiðslur sem hafa viðgengist hjá stofnunum hvort sem það er aksturskostnaður, ferðakostnaður eða annað, reyna að nálgast þau verkefni frekar en að fara inn í grunnlaunin. Það er auðvitað mikilvægt í því ástandi sem nú er að ekki sé bætt á atvinnuleysið með því að segja upp fólki hjá stofnunum og þó að það sé erfitt að hlífa sérstaklega opinberum starfsmönnum þá held ég að ekki sé á það bætandi. Í flestum tilfellum erum við í rauninni að færa fólk, ef fólk fer út af stofnunum eða er rekið fer það beint á atvinnuleysisbætur og eykur þá kostnaðinn þeim megin. Það er markmið í sjálfu sér að reyna að halda vinnunni og reyna frekar að draga úr yfirvinnu, skipta vinnu betur á milli manna með svipuðum hætti og almenni markaðurinn hefur verið að gera.

Hins vegar er því beint til ráðuneytanna líka að menn reyni að forðast að ráða í ný störf og forðist að ráða í stað þeirra sem hætta. Allt þetta skiptir auðvitað máli þegar horft er til lengri tíma því að hluti af því sem verður að koma í framhaldinu og er ekki kynnt í þessu frumvarpi er uppstokkun á stofnunum og hagræðing í rekstrinum í heild. Það er mikilvægt að eftir þessi fyrstu tvö ár og raunar á næsta ári verði komin upp ný uppstilling í samfélaginu í heild þar sem við reynum að átta okkur á hvað er nauðsynlegur rekstur, í hvaða hlutverki ríkið á að vera, hvað það er sem við ætlum að sjá um af samneyslunni. Þetta krefst þess að við skoðum upp á nýtt þær stofnanir sem hafa verið settar af stað, metum að hve miklu leyti við ráðum við að reka þær áfram, að hve miklu leyti er nauðsynlegt að sameina þær eða hagræða í rekstri þeirra. Boðað hefur verið að sameinuð verði m.a. ráðuneyti og reynt verði að minnka stjórnsýsluna á því sviði og þegar eru í gangi vinnuhópar innan ráðuneytanna. Ég tel mjög mikilvægt að það fari af stað vinnuhópar á vegum stjórnmálanna líka til að skoða stofnanareksturinn í heild og endurmeta með hvaða hætti hlutirnir verði gerðir.

Sama gildir um það hvernig staðið er að fjárlagagerð. Við höfum fengið ábendingar og tillögur sem hafa reyndar verið í gangi undanfarin ár en nú er kominn tími til að framkvæma þær þar sem reynt verður að ná meiri aga í ríkisfjármálunum þannig að þingið skapi framkvæmdarvaldinu ramma og framkvæmdarvaldið fái síðan leyfi til að hegða sér innan þess ramma. Það verður svo hlutverk okkar þingmanna að ganga frá fjárlögunum í framhaldi af því, þannig að þetta verður svona tveggja þrepa fjárlagagerð. Eftirlitshlutverk þingsins verði síðan aukið þannig að hægt verði að fá upplýsingar mun reglulegar en áður. Hæstv. fjármálaráðherra boðaði það að reynt verði að koma þessu þannig fyrir að menn geti fylgst með þessu mánaðarlega eins og gert er almennt í rekstri og sveitarfélögin gera.

Ég ætla ekki að fara ofan í einstaka liði. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að enn skuli þurfa að grípa til þess að taka til baka sumar af þeim hækkunum sem náðst höfðu varðandi aldraða og öryrkja og þó að reynt sé að dreifa því þannig að það komi frekar á þá sem hafa haft heldur meira út úr því bótakerfi, þ.e. að tekjutengja það, þá er auðvitað mjög sárt að þessi hópur skuli þurfa að verða fyrir þessum niðurskurði. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, sérstaklega ef við horfum til lengri tíma, að þarna sé farið eitt skref til baka miðað við þau sem tekin höfðu verið áfram á undanförnum árum. Það verður svo að skoðast í framhaldinu hvernig þetta kemur út. Auðvitað verður það að vera markmið okkar núna eftir allan þennan loftbólutíma að við stillum samfélaginu upp á nýtt miðað við miklu jafnari tekjuskiptingu og miklu meira jafnrétti en áður var. Það eru m.a. ein af þeim fyrirmælum sem hér hafa verið gefin í gegnum kjararáð og til stofnana að enginn í t.d. þessum ohf.-félögum eða fyrirtækjum sem eru í eigu ríkisins nú orðið hafi hærri laun en forsætisráðherra og menn fari skipulega í það að endurmeta launakerfið með það í huga að munurinn verði minni á lægstu og hæstu laununum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt þegar við erum að stokka samfélagið upp og breyta því og bæta.

Ég vil taka fram að það vantar ýmislegt í þetta, t.d. má benda á að fjalla þarf mun meira um fjármál sveitarfélaga þegar við erum að skoða fjármálin almennt, tekjur þeirra, og hvernig þau geta tryggt þjónustu sína. Það er auðvitað galli ef skorið er niður hjá ríkinu að það lendi síðan beint á sveitarfélögunum og öfugt og það sé togstreita á milli hvar menn láta útgjöldin lenda. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það eigi sér stað öflugt samstarf á milli aðila. Í vinnunni varðandi ríkisfjármálin átti sér stað víðtæk umræða í Karphúsinu þar sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu komið sér saman um að eiga orðræður saman og þar voru fulltrúar frá stjórnvöldum sem hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum. Það hafa komið fram, í framhaldi af því sem hér kemur fram, áhyggjur hjá þeim út af framkvæmdunum vegna þess að þegar við skerum niður framkvæmdir eins og hér um 3,5 milljarða þá er auðvitað hætt við því að það komi út í auknu atvinnuleysi og ekki er á það bætandi. En ef menn ætla að ná niður nettótölu eins og þarna er um 20 milljarða, þá kemur það við alls staðar og framkvæmdastigið var mjög hátt í vegaframkvæmdunum. En þetta kallar líka á að menn klári þá vinnu sem var einmitt byrjuð uppi í Karphúsi um efnahags- og atvinnumálin og með hvaða hætti lífeyrissjóðirnir gætu hugsanlega komið að í sambandi við framkvæmdir og með einhvers konar einkaframkvæmdarhugmyndum, við skulum ekkert leyna því. Þannig er t.d. með Landspítalann, þar sem við skerum niður 400 millj. sem þar voru áætlaðar í framkvæmdir, að ef sú framkvæmd á að fara af stað þarf hún að komast út fyrir ríkissjóð og borgast af öðrum aðilum með einhverjum hætti. Gallinn við allt slíkt er í raunveruleikanum sá að jafnvel þó að menn færi þetta til einhverra aðila og þeir hafa ekki sjálfstæðan tekjustofn til að greiða niður bygginguna eða framkvæmdina, þá er þetta ávísun á ríkið hvort sem er og kemur inn í hallareksturinn hjá okkur í heild sem er auðvitað afleitt.

Það er auðvitað hárfínt bil þarna á milli þegar við erum að ræða um skatttekjur og það má kannski segja að menn hafi tekið Samtök atvinnulífsins á orðinu vegna þess að þau sögðu strax í upphafi opinberlega og í þessum viðræðum í Karphúsinu að þau sæju ekki annað en að þau mundu þurfa að bera kostnaðinn af auknu atvinnuleysi og stungu þess vegna upp á því að tryggingagjaldið mundi greiða þann kostnað og í rauninni er miðað við að tryggingagjaldið greiði einmitt vaxandi kostnað við Atvinnuleysistryggingasjóð og sjái um að fjármagna hann áfram. (Gripið fram í.) Það er tillaga frá þeim og menn hafa þegið það. Það er alveg hárrétt að það er svo sem ekki af miklu að taka eins og reksturinn er í dag en eftir sem áður er það þó þannig að töluverður hluti af atvinnulífinu gengur enn þó að á ýmsu gangi. Þetta eru tillögur frá þeim aðilum og ég held að það sé líka rökrétt að menn horfi svona á þetta, að atvinnuleysið er hluti af vinnusamningum á markaði og að það sé fjármagnað af þessu og það sé þá sameiginlegt verkefni okkar að ná niður kostnaðinum við atvinnuleysið og tryggja það að við fáum hjól atvinnulífsins til að snúast að nýju og fá þannig til baka og geta þá lækkað tryggingagjaldið aftur. (Forseti hringir.) Ég vil kannski kom að því seinna að öll þau úrræði sem við hefðum þurft að vera að nota núna voru notuð í góðærinu, því miður, hvort heldur það voru lækkanir á sköttum eða aukin ríkisumsvif. Við erum búin að missa af því tækifæri vegna þess að þau voru notuð þegar þenslan var mest á sínum tíma.