137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[13:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að aðaláhyggjuefnið er einmitt hvernig við ætlum að afla tekna. Þar hefur að vísu ekkert breyst frá því sem verið hefur, a.m.k. í þeim áætlunum sem við höfum haft uppi á borðinu undanfarið. Menn hafa verið að ræða þar um stóriðjuna og við fengum aðila inn í fjárlaganefnd einmitt til að ræða um hvernig horfurnar væru þar og það komu ekki fram neinar nýjar upplýsingar þar þótt við vitum að heilmikil umræða sé í gangi með hvaða hætti menn skaffa orku til stóriðjufyrirtækja eða með hvaða hætti menn geta fjármagnað framkvæmdir þar. Það er einmitt hluti af því sem hefur verið rætt inni í Karphúsi hvort lífeyrissjóðirnir eigi með einhverjum hætti að koma að framkvæmdum í sambandi við orkuframleiðslu, m.a. Búðarhálsvirkjun sem var nefnd í því samhengi. Við deilum því áhyggjunum af þessu og verðum auðvitað að sjálfsögðu að reyna að finna lausnir á því.

Hin mikilvæga forsendan er auðvitað að ná utan um öryggisreksturinn og sýna að sjálfsögðu einhverja langtímaáætlun og þá geta menn deilt um það hvort þetta er fullnægjandi sem hér er verið að kynna og það sem verður kynnt á mánudaginn í skýrsluformi. En það er auðvitað mikilvægt að við reynum samt að gera það með þeim hætti að við sýnum fram á að við ráðum við verkefnið. Ég hvet þingmenn til að vera ekki að tala það niður sem þó er vel gert og það að kalla þær aðgerðir sem hér eru „látlausar skattahækkanir“ þá held ég að við hv. þingmaður höfum staðið í svipuðum skattahækkunum (ÓN: Nei.) ívið betri. Það er einfaldlega þannig að ef við settum tekjuskattinn á voru það svipaðar upphæðir, svo að því sé haldið til haga. (Gripið fram í.)

(Forseti hringir.) Ég vona að ég fái að komast að hinum spurningunum í seinna andsvari.