137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[13:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst sem stjórnarliðið taki mjög nærri sér að menn skuli koma með gagnrýni á þau frumvörp sem hér eru lögð fram. Þegar stjórnarandstaðan leyfir sér að andmæla þeim áformum sem hér eru og lýsa því hver raunveruleg staða er þá er allt í einu talað um svartsýni og niðurrifsstarfsemi. Það er náttúrlega alveg óþolandi tal ef þetta á að vera þannig að ætlast sé til þess að við séum jánkandi öllu því sem ríkisstjórninni dettur í hug, sérstaklega þegar um er að ræða framkvæmdir í ríkisfjármálum sem vantar alla heildarmynd á. Það hefur verið gagnrýnt af öðrum en stjórnarandstöðunni. Ég get nefnt Gylfa Arnbjörnsson til sögunnar og vitnað þar til fréttar í Morgunblaðinu þar sem hann lýsir því að þær aðgerðir sem eru boðaðar í frumvarpinu séu alls ekki nægjanlegar. Það skorti alla heildarmynd og þær séu alls ekki líklegar til þess að valda neinum breytingum. Og í áformum peningastefnunefndar í vaxtamálum vanti enn þá að menn átti sig á því hvernig ríkissjóður ætlar að afla nauðsynlegra tekna til að koma okkur upp úr þessu. Þessu verða menn að svara og það þýðir ekki að ætla að fara að ásaka okkur um að vera með niðurrifsstarfsemi og leiðindi.