137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[13:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að biðjast undan því að hér sé hörð gagnrýni á það sem verið er að leggja fram og það er hárrétt sem komið hefur fram að það þarf að sýna betur á spilin varðandi atvinnulífið og það er verkefni sem verður að vinna með ASÍ og samtökum vinnumarkaðarins.

Það sem ég náði ekki að svara áðan var varðandi það af hverju menn hefðu trú á því að menn stæðu við reksturinn á þessu ári. Ég var einmitt að leiða rök að því að það verður býsna stórt og erfitt verkefni og er það, ekki vegna þess að ekkert hafi verið gert því það er alrangt. Það væri dónaskapur við stofnanir ríkisins að það hafi ekki verið unnið mjög skipulega að því að reyna að halda rekstrinum í hófi og það er þess vegna sem er farið mildilega í það núna vegna þess að menn ætla að gera mjög ríka kröfu um að menn standi áætlun. Sú vinna hefur farið fram. Það er búið að fara yfir þetta með ráðuneytunum og það er hægt að fara yfir það í nefndunum með hvaða hætti menn standa en það er ekkert sem bendir til annars en að menn muni vinna rösklega í þessu og reyna að standa við þær áætlanir sem gerðar hafa verið. Það er nefnilega atriði númer eitt, tvö og þrjú áður en við förum í enn frekari niðurskurð því við áttum sameiginlega þátt í því að setja hér (Forseti hringir.) útgjaldaramma sem var mun þrengri en áður og við skulum reyna að standa sameiginlega að því að hann standi.