137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að hagræðingin var sett í eina tölu, raunar upphaflega upp á 3,3 en ekki 3,5 milljarða og við glímdum við þá tölu sem niðurskurðartölu. Það hagar þannig til að þegar menn fara í niðurskurð á stofnunum er sumt beint í rekstrinum, annað er í tilfærslum eða einhverjum greiðslum innan kerfisins. Það varð að samkomulagi að glíma við þessa tölu, 3,3 milljarða, í heildartölu, en hluti af því færðist inn í tilfærslurnar. Þið sjáið það í sundurliðuninni ef þið skoðið hana að tölunni er haldið en upphæðin dreifist bæði á reksturinn og tilfærslurnar. Þá er ég ekki að tala um tvo milljarða frá félagsmálaráðuneytinu vegna aldraðra og öryrkja í frumvarpinu.

Varðandi tekjuáætlunina treysti ég mér svo sem ekki til að meta það. Það er auðvitað full ástæða til að hafa áhyggjur af því að tekjur skili sér ekki en ekki ætla ég að fara að halda uppi háum launum til þess að tryggja að hátekjuskatturinn skili sér. Við viljum frekar að það sé leiðrétt í kerfinu, sérstaklega í ríkiskerfinu, að færð verði niður laun hjá þeim sem betur mega sín til þess að spara í rekstri. Það er það sem lagt er upp með jafnvel þó að það bitni að einhverju leyti á hátekjuskattinum. Við skulum láta reyna á það með hvaða hætti þessar tekjur muni skila sér, þetta eru útreikningar sem unnir hafa verið ítrekað í ráðuneytinu í tengslum við skattayfirvöld. Það hafa fáir gert athugasemd við þessar tölur. Tryggingagjaldið er t.d. unnið í samráði við þá aðila á vinnumarkaðnum, þeir hafa sannreynt þessar tölur og haft sína skoðun á því þó að það verði alltaf að hafa fyrirvara á skatttekjum, að hve miklu leyti þær skila sér. Það er auðvitað mikilvægt líka að þær skili sér með góðu og öflugu skatteftirliti og sameiginlegu átaki þannig að menn vinni ekki svart eða fram hjá kerfinu eins og alltaf er hætta á í svona ástandi.

Varðandi niðurskurð aflaheimilda hefur það hvergi komið til umræðu að það verði tekjumissir vegna breytingar á aflaheimildum, þannig að því sé bara svarað hreint út.