137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem er mjög alvarlegt og við þekkjum forsögu þess. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli, eins og margoft hefur komið fram, að þingmenn og þjóðin standi saman eins og kostur er við að vinna okkur út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Það er hins vegar ekki hægt annað en að fara yfir málið með mjög gagnrýnum hætti. Það verður að segjast eins og er, sérstaklega í ljósi forsögunnar, að framganga hæstv. fjármálaráðherra er ansi sérstök, virðulegi forseti. Ég rifjaði upp og las ræðu hæstv. fjármálaráðherra, sem þá var hv. þingmaður, sem hann hélt í desember, nánar tiltekið 15. desember 2008. Hann flutti þá ræðu sína sem forustumaður stjórnarandstöðunnar við fjárlögin sem hann hefur núna ákveðið að framfylgja.

Það er skemmst frá því að segja að núverandi hæstv. fjármálaráðherra afgreiddi það plagg sem einhverja vitleysu og talaði um að hér væri ekki í rauninni um raunveruleg fjárlög að ræða heldur væri þetta fyrst og fremst einhvers konar ágiskunarplagg sem samið væri af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er hins vegar stíll hæstv. fjármálaráðherra núna að taka u-beygju í flestum málum og við þurfum ekkert að rifja upp Icesave-málið. Það er hins vegar ágætt að rifja það upp að þannig afgreiddi hann fjárlögin en þegar hann komst í ríkisstjórn og varð hæstv. fjármálaráðherra var hann fljótur samþykkja þau og sá enga ástæðu til þess að breyta þeim frá því að hann tók við 1. febrúar sl. og til þessa dags.

Það er umhugsunarefni hvernig hv. þingmenn Vinstri grænna töluðu í umræðunni þá, hvernig þeir börðust gegn öllum niðurskurðarhugmyndum og töluðu eins og hér væri allt í himnalagi. Einhver kynni að segja: Batnandi mönnum er best að lifa, og það má kannski til sanns vegar færa en það er hins vegar umhugsunarefni hversu ábyrgðarlitlir hv. þingmenn voru í þeirri umræðu, því miður, og hversu ábyrgðarlítil sú ríkisstjórn sem nú situr er og var minnihlutastjórn frá 1. febrúar 2009 fram að kosningum. Það þýðir ekkert að leggja málin þannig upp og segja, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði í andsvörum fyrr í dag, að hann hafi verið skammaður fyrir skattahækkanir.

Í þessari skrýtnu kosningabaráttu var stjórnarandstöðunni neitað um upplýsingar um stöðu ríkisfjármála hvað eftir annað. Það voru engar hugmyndir, hvað þá staða mála, lagðar fyrir kjósendur fyrir þessar kosningar, það var ekki gert. Þvert á móti var þinginu neitað um upplýsingar sem eru algjörlega sjálfsagðar. Ég veit að fyrir útlendinga sem fylgdust með þessari kosningabaráttu — glöggt er gests augað — að þeir voru vægast sagt hissa, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að ekkert var fjallað um þau mál sem þó eru mikilvægust og snúa að því hvernig við ætlum að vinna okkur úr þessum vanda sem snýr einmitt að ríkisfjármálum. Þar neitaði núverandi ríkisstjórn þinginu um upplýsingar. Það er allt saman skjalfest og ég get flett því upp í þingtíðindum. Það mun vera þannig um ókomna tíð og með því má hæstv. fjármálaráðherra lifa.

Ég heyri þá tölu núna í fyrsta skipti frá stjórnarliða — það kom fram hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar — að það stefndi í að hallinn yrði 193 milljarðar kr. Ég man ekki, virðulegi forseti, eftir að hafa séð þá tölu neins staðar. Ég veit ekki hvort einhver stjórnarandstöðuþingmaður hér inni hefur séð hana áður. — Það er ekki svo. En kom fram núna að hallinn stefndi í 193 milljarða. (GuðbH: Ef ekkert yrði að gert.) Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson kallar: Ef ekkert yrði að gert. Það hefur komið fram að ef ekkert yrði að gert mundi hallinn verða meiri en menn hafa talað um 173 milljarða fram til þessa. Þarna munar einungis 20 milljörðum kr. og ég er bara ekki það vanur stórum tölum að mér finnst þetta vera há tala. (Gripið fram í.) Hér skellir Guðbjartur Hannesson skuldinni á síðustu ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Já, hann tekur að vísu líka á sig sök þannig að það er ágætt.

Virðulegi forseti. Lagt var upp með af síðustu ríkisstjórn að verkefni ársins 2009 væri að standa fjárlögin. Farið var í þann erfiða leiðangur með það fyrir augum að halda sig við þá hallatölu sem lagt var upp með. Við stefnum í að fara úr 153 milljörðum í 193 milljarða og núna fáum við upplýsingar, kosningarnar eru búnar, og nú fáum við upplýsingarnar sem við báðum um og hefðum átt að fá fyrir kosningar. Hver er raunin, virðulegi forseti? Það er engin ástæða fyrir hv. þm. Helga Hjörvar að brosa yfir því. Það er staðfesting á því að það eru algjör lausatök í ríkisfjármálunum. Því miður sjáum við (Gripið fram í.) mikið af opinberum stofnunum sem ekki halda sig innan fjárlaga.

Hvað þýðir það, virðulegi forseti, ef stofnun er komin 20% yfir fjárhagsáætlun þegar komið er fram á mitt ár? Það þýðir að öllu óbreyttu að skera þarf niður um 40% á seinni hluta ársins. Við erum að tala um stofnanir eins og heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir og annað slíkt, þjónustu sem er afskaplega viðkvæm. Menn reyndu að ná sér í vinsældir og krækja í atkvæði á síðustu mánuðum en það mun koma beint niður á umbjóðendum þeirra, á þjóðinni í formi þjónustuskerðingar og hærri skatta. Það er raunveruleikinn, virðulegur forseti.

Við sjáum síðan að menn reyna að taka á þessu verkefni og hefur ekkert vantað upp á það, virðulegi forseti, að þeir sem eru í forustu fyrir þessa ríkisstjórn hafa farið mikinn yfir því hvað verkefnið er erfitt. Þeir hafa í rauninni ekki sagt mikið meira á undanförnum vikum og mánuðum en að benda á hið augljósa, hvað verkefnið er erfitt. Við vissum það í október, nóvember að verkefnið er erfitt, það er engin frétt í því. En forustumenn þessarar ríkisstjórnar, þeir sem eru hér í forustu fyrir stjórnarflokkana, mega lifa með það að þeir gerðu verkefnið erfiðara vegna þess að þeir voru í vinsældakosningu og sýndu af sér algert ábyrgðarleysi. Enn og aftur vek ég athygli á því að þeir leyndu þingið upplýsingum fyrir kosningar. Allir hér inni í þessum sal þekkja það, sumir af eigin reynslu.

Síðan sjáum við þessar hugmyndir hér. Það er augljóst af textanum, tillögunum og umræðunni að áherslan er fyrst og fremst á einn veg, að hækka skatta. Það er það sem ríkisstjórnarflokkarnir ná saman um. Það er það sem sameinar þessa flokka, viljinn til að vera við völd og hækkun skatta.

Það kom fram í andsvari áðan að hæstv. fjármálaráðherra virtist ekki einu sinni hafa leitt hugann að því að þeir skattar sem hann nefndi væru sérstakar álögur á atvinnulífið, að atvinnulífið þyrfti að bera sínar byrðar líka, hvaða afleiðingar þær hafa á atvinnustigið. Virðulegi forseti. Við skulum ekki vera í neinum blekkingarleik. Ef settir eru skattar upp á 12,5 milljarða á launatekjur mun það hafa áhrif á atvinnustigið, þetta er ekki flókin jafna. Ef aðili sem rekur fyrirtæki þarf að borga meira með hverjum starfsmanni getur hann haft færri í vinnu. Það er ekki flókið.

Hér hafa menn kallað eftir úttektum á öllu mögulegu og ómögulegu en hæstv. fjármálaráðherra upplýsti okkur um að hann hefði ekki hugmynd um málið. Ég ætla ekki að halda því fram að hann hafi staðið hér og sagt það en við sem höfum hlustað á hæstv. fjármálaráðherra, sem hefur verið hér sem þingmaður svo lengi sem elstu menn muna og einnig sem ráðherra, hann varð þingmaður rétt upp úr miðri síðustu öld, vitum alveg hvað það þýðir þegar hæstv. ráðherra talar eins og hann talaði hér áðan. Það vantaði ekki magnið af orðum en svörin voru engin.

Síðan eru aðrir þættir sem lítið hafa verið ræddir en komu þó í umræðu um orkuuppbyggingu. Þeir voru ræddir að beiðni fulltrúa stjórnarandstöðunnar í kjölfarið í fjárlaganefnd. Það kemur í ljós að grunnurinn að þessum áætlunum stenst ekki. Hæstv. umhverfisráðherra kom hér afskaplega önug, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og hreytti því út úr sér að það væri engin orka fyrir þau álver sem væri gert ráð fyrir í spám hæstv. fjármálaráðherra. Það var ekki stjórnarandstaðan sem sagði þetta, það var hæstv. umhverfisráðherra sem lýsti þessu yfir á þinginu. Hún sagði að því færi víðs fjarri að hér væri til einhver orka í þau álver sem hæstv. fjármálaráðherra gerði ráð fyrir í þeim áætlunum sem fyrir liggja fyrir þessi fjárlög. Staðfest hefur verið í þingnefnd að hæstv. umhverfisráðherra hafði rétt fyrir sér. Hæstv. umhverfisráðherra mætti hér, snupraði hæstv. fjármálaráðherra og því miður fyrir þjóðina hafði hæstv. umhverfisráðherra rétt fyrir sér.

Við hljótum þá að spyrja: Hverjar eru fyrirætlanir úr því að það er rangt sem lagt er upp með, grunnurinn að fjárlögum fyrir næstu ár. Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í málinu? Ég held að það væri mjög eðlilegt ef hæstv. fjármálaráðherra mundi upplýsa þingið um það. Hann var snupraður af samflokksmanni sínum, hæstv. umhverfisráðherra, og því miður fyrir okkur öll, þjóðina, hafði hæstv. umhverfisráðherra rétt fyrir sér en ekki hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Fleira mætti nefna. Ég hef miklar áhyggjur af því að nú er komið fram á mitt ár, það er kominn seinni hluti júnímánaðar, og ríkisstjórninni hefur ekki tekist að halda fjárlög ársins 2009 en kemur núna með þessar fyrirætlanir. Ég hef miklar áhyggjur af því að það standist sem snýr að ríkisrekstrinum. Sömuleiðis hef ég miklar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að þessar fjölbreytilegu hugmyndir um skattahækkanir muni skaða atvinnulífið. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir hafi eitthvað velt því fyrir sér hvaða áhrif það flækjustig hefur sem menn eru að búa til á skattkerfi okkar. Þjóðir heims hafa af góðri ástæðu reynt að einfalda skattkerfið, það gerðum við í þokkalega góðri sátt, gott ef það var ekki Samfylkingin sem var fylgjandi slíkum hugmyndum, í það minnsta stundum. Hér hafa menn tekið u-beygju og við þurfum aftur að fá sérfræðinga til þess að eiga við einföldustu skattamál einstaklinga ef þetta nær fram að ganga.