137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að það sé alveg skýrt þá bið ég menn að hafa í huga að hallatalan eða hin neikvæða tekjujafnaðartala í fylgiskjali með frumvarpinu á bls. 10, þar sem talað er um 176 milljarða kr. áætlaðan halla á ríkissjóði á þessu ári, skýrist af því að innifalið í henni eru áfallnar verðbætur á skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands en þær eru hins vegar ekki færðar til gjalda í fjárlögum. Þær eru allt annað mál heldur en sú óhagstæða þróun minni tekna og meiri útgjalda sem í hefðbundnum uppgjörsvenjum okkar mundu leiða til um það bil 20 milljarða halla í viðbót ef ekki verður að gert en það verður gert og rúmlega, það. Ætlunin er að halda sig nokkurn veginn á áætlun hvað varðar útgjöld samkvæmt fjárlögum.

Ég kannast ekki við að upplýsingum sem legið hafa fyrir af einhverju tagi hafi verið neitað. Ég mótmæli því og hv. þingmaður hefur engin rök fært fyrir því. Um leið og það lá fyrir í lok marsmánaðar að þessi þróun stefndi í að verða svona óhagstæð hvað varðaði aukinn halla á ríkissjóði sagði ég það opinberlega, nokkrum vikum fyrir kosningar, að þessi óhagstæða þróun væri að birtast okkur í tölum. Það var ekki legið á þeim upplýsingum. Upplýsingar um tekjuþróun ríkissjóðs birtast jafnóðum og eru færðar á heimasíðu ráðuneytisins. Um leið og uppgjör fyrsta ársfjórðungs hvað varðaði útgjaldaþróun lá fyrir kynnti ég það í ríkisstjórn og sendi það beint til fjárlaganefndar. Þannig var það. Það barst fjárlaganefnd í hendur nokkrum dögum eftir að það varð opinbert og lá fyrir. Hvaða upplýsingar er hv. þingmaður að tala um sem ekki hafa verið reiddar fram?