137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef vandinn er sá að hæstv. fjármálaráðherra í fullri alvöru man ekki hvað við vorum að ræða í þingsal, man ekki eftir þeim bréfum sem formaður fjárlaganefndar sendi upp í ráðuneyti þá er það auðvitað bara eitthvert mál sem þarf að taka á og ég ætla ekki að fara að gagnrýna hæstv. ráðherra, í fullri alvöru, hann man ekki þessa hluti. Þetta er allt saman skjalfest frá báðum. Sjálfur spurði ég hæstv. ráðherra í þingsal um upplýsingar sem svo sannarlega lágu fyrir.

Ég var heilbrigðisráðherra fram á 1. febrúar á þessu ári. Ég veit alveg hvernig þessir hlutir virka þannig að hæstv. fjármálaráðherra þarf ekki að kenna mér það hvaða upplýsingar eru til staðar. Ég frábið mér allt slíkt. En ef hæstv. fjármálaráðherra er svo illa haldinn af minnisleysi að hann man ekki hvaða bréf voru send, man ekki hvaða umræða var tekin í tengslum við þessi mál fyrir nokkrum vikum þá er það bara þannig. En það er sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir það með hæstv. ráðherra og ég held að enginn sé svo ósvífinn af stjórnarliðinu að þræta fyrir það að þessar beiðnir hafi komið fram. Ég get ekki ímyndað mér það. Ég var í sambandi við þáverandi formann fjárlaganefndar sem sagði mér þetta. Hann sendi samviskusamlega allar þessar beiðnir upp í ráðuneyti, það var beðið um þetta þegar gestir komu í fjárlaganefnd og það þarf ekki að segja þeim sem hér stendur, virðulegi forseti, að þessar upplýsingar hafi ekki verið til staðar. Þær voru svo sannarlega til staðar og þekki ég það vel sem fyrrverandi ráðherra í þeim málaflokk sem tekur 25% af ríkisútgjöldunum.