137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson deilir með mér áhyggjunum af því að hér hafa stofnanir komist upp með það að fara fram úr ár eftir ár og hann viðurkennir að það hafi verið vandamál á undanförnum árum þannig að við höfum sameiginlegt verkefni við að glíma, þ.e. að sjá til þess að áætlun þessa árs standist. Það eru einmitt rökin fyrir því að hér er ekki farið í harkalegri niðurskurð að menn ætli einmitt að leggja á það ríkari áherslu en nokkru sinni fyrri og vænti stuðnings frá hv. þingmanni við það að fylgja því eftir að menn standi áætlanir. Það er grunnforsenda vegna þess að það er lítið gagn að því að fara fram úr á einum stað og ætla svo að reyna að skera niður á öðrum. Það er það sem lagt er upp með og í þeim vanda verði ekki hægt að fara með fjárheimildir á milli ára nema þær hafi verið frystar þannig að menn séu ekki að nota þá aðferð til að leysa vandann.

Hv. þingmaður talaði um það í ræðu sinni að áherslan í þeim úrræðum sem hér er nefnd sé eingöngu hækkun skatta. Þetta er auðvitað orðfæri sem maður þekkir þó að við höfum tekið þátt í því að verja skattahækkanir í gömlu ríkisstjórninni. En mig langar að spyrja hv. þingmann: Er einhver munur á þeim sköttum sem hér er verið að leggja á eða þeim hugmyndum sem hv. þingmaður hafði sjálfur sem ráðherra um aukningu á sjúklingagjöldum? Hvað var það há upphæð sem átti að taka inn í tekjum í sjúklingagjöldum á sínum tíma í því fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram um síðustu áramót?

Það er auðvitað rétt sem komið hefur fram að skattar hafa áhrif á atvinnustigið. Við getum að sjálfsögðu reynt að meta það og þar þarf auðvitað að finna afar fínan ballans, hvernig menn bregðast við en það vita auðvitað allir að harkalegur niðurskurður umfram það sem hér er verið að boða mun líka þýða að það hverfa störf. Það er útilokað að fara mjög harkalega í reksturinn til viðbótar öðruvísi en að segja upp fólki.