137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða. Ég get alveg upplýst hv. þingmann um að við munum aðstoða eins og við höfum verið að reyna að gera, reyna að aðstoða ríkisstjórnina í því að standast áætlanir. En pressan kemur frá okkur, virðulegi forseti. Það hefur enginn tími farið í það, hvorki innan nefnda eða í þinginu að upplýsa þing eða þingnefndir um stöðu mála, hvað þá áætlanir. Núna um miðjan júní eru ekki enn þá komnar upplýsingar, t.d. í heilbrigðisnefnd, um hvernig menn ætla að ná fjárlögum 2009, ekki enn þá og það er búið að biðja um það núna í marga, marga mánuði.

Varðandi muninn á sjúklingagjöldum sem hv. þingmaður segir að ég hafi fengið hugmyndir um og þær skattahækkanir sem eru í gangi núna þá er það þannig, og hv. þingmaður sem formaður fjárlaganefndar ætti að þekkja það, að hver ráðherra fær sinn ramma. Ég held að ég muni það rétt að mér var gert að hækka sjúklingagjöld um 300 millj. kr., sem varð niðurstaða milli ríkisstjórnarflokkanna. Sem ráðherra þurfti ég að fara í það erfiða mál að reyna að deila því eins sanngjarnt niður og hægt var. Það var ekkert skemmtilegt en það var eitthvað sem við urðum að gera. Ég nefndi bara einn skatt hér, sem menn hafa talað um eins og skatt á atvinnulífið en er í rauninni skattur á launafólk og hann upp á 12,5 milljarða. Síðan fór ég ekki mikið í þær flóknu breytingar á skattkerfinu sem gerir skattkerfi okkar sem er tiltölulega einfalt mjög flókið, en það er sjálfsagt að fara í það. En þessi samanburður hv. þingmanns er algerlega fráleitur. En ég vona að hv. þingmaður sem formaður fjárlaganefndar og sem liðsmaður í stjórnarliðinu sýni okkur á spilin varðandi stöðu stofnana og hvernig menn ætla (Forseti hringir.) að sjá til þess að við náum að standast áætlun því það er forsenda fyrir því að við getum náð þeim árangri sem upp er lagt með.