137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[14:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Efnahagsmálin eru, eins og alþjóð veit, mál málanna í dag. Tekjur ríkisins hafa dregist verulega saman auk þess sem ábyrgðir hafa fallið á ríkissjóð. Ljóst er að lítið verður til skiptanna úr ríkiskassanum næstu missirin og því verðum við að bregðast við. Við endurreisn efnahagslífsins er þörf á hugrökku fólki með bein í nefinu sem þorir að taka erfiðar ákvarðanir og ég vonaði svo sannarlega í upphafi þings að ríkisstjórninni mundi takast vel að sinna þeim stóru verkefnum sem við stöndum frammi fyrir á þeim miklu örlagatímum sem við lifum.

Í aðdraganda kosninga urðu frambjóðendur allra flokka varir við miklar væntingar kjósenda til að nýtt þing mundi taka á málum af festu og ábyrgð. Ýmsir frambjóðendur kynntust nýjum vinnubrögðum á þingi og áhersla var aukin á samvinnu og samstarf. Við 27 nýir þingmenn sem tókum hér sæti ásamt mörgum góðum reynsluboltum áttum það öll sameiginlegt samkvæmt minni upplifun að vilja bretta upp ermarnar og taka til óspilltra málanna við endurreisn efnahagslífsins. Í stjórnarsáttmálanum voru jafnframt gefin fögur fyrirheit um samráð allra flokka.

Nú er rétt rúmur mánuður frá því að þing kom saman að afloknum kosningum og óneitanlega hafa vaknað ýmsar spurningar hjá þeirri sem hér stendur um þá forgangsröðun varðandi áherslu og auknar álögur á íbúa landsins sem ríkisstjórnin leggur upp með við endurreisnarstarfið. Jafnframt er ég hugsi yfir því hvernig samráðskafli stjórnarsáttmálans hefur komið til framkvæmda.

Grundvöllur þess að við náum þeim árangri við stjórn efnahagsmála sem leiðir til vaxtalækkunar og afnáms gjaldeyrishafta er að stjórnvöld nái tökum á ríkisfjármálunum og að endurreisn bankanna verði lokið. Áður en ríkisfjármálin og bankarnir komast í lag verða allar aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnulífinu máttlausar. Það er í sjálfu sér ágætt að ríkisstjórnin náði að leggja fram það frumvarp sem hér er til umræðu í dag vegna þess að ekkert er verra en óvissan og aðgerðaleysið. Það vekur manni hins vegar hryggð að sjá að ekki hafi tekist betur en raun ber vitni að halda utan um ríkisbudduna á þeim mánuðum sem sú ríkisstjórn, sem stjórnað hefur frá því í febrúar, hefur setið og þess vegna er brýnt að halda vel á spöðunum það sem eftir er ársins og svo í framhaldinu.

Nú bendir allt til þess, virðulegi forseti, að sú stefna sem núverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra reifaði í marsmánuði, að því er mig minnir, um hressilegar skattahækkanir til að leysa efnahagsvandann verði að veruleika. Er það svo að við endurreisum efnahagslífið með hressilegum skattahækkunum? Staða íslenskra heimila og fyrirtækja er veik vegna hárra vaxta og verðbólgu, atvinnuleysi vex og fyrirtæki reyna að halda fólki í vinnu með því að lækka starfshlutfall og laun starfsmanna sinna frekar en að grípa til uppsagna. Þess vegna vekur það áhyggjur varðandi stöðu fyrirtækjanna og þeirra starfsmanna að verið sé að hækka tryggingagjaldið. Fjölskyldurnar berjast við að greiða af lánum sínum og fyrirtæki sligast undan háum fjármagnskostnaði. Ég met stöðuna svo að fólkið í landinu og fyrirtækin megi ekki við frekari áföllum eða álögum af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Hver og einn Íslendingur hefur nú þegar tekið á sig auknar byrðar vegna stöðu efnahagsmála. Það er ekki hægt að ætlast til þess að heimilin í landinu taki á sig auknar byrðar. Ríkisstjórnin verður að sýna að til staðar sé vilji og dugur til að taka til í ríkisfjármálunum með því að skera verulega niður í rekstri. Tiltekt á því heimili er nauðsynleg forsenda þess að vottur af friði skapist um þær aðgerðir sem fram undan eru. Þetta er stórt og erfitt verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Verkefnin eru flókin og vandinn djúpstæður og auðveldara um að tala en í að komast, ég geri mér grein fyrir því. En staðreyndin er engu að síður sú að íslensk heimili og atvinnulífið mega engan tíma missa.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram viðamiklar efnahagstillögur sem vakið hafa jákvæð viðbrögð þvert á flokka í þinginu og þær eiga það að meginhluta til sameiginlegt að eiga að vera komnar til framkvæmda fyrir 15. júlí nk. Að mínu mati er framlagning þingsályktunartillögunnar og umræður um hana í þinginu það besta sem hefur verið lagt til málanna á þessu sumarþingi. Því hvet ég þingmenn til að beita sér fyrir því að meðferð tillögunnar verði hraðað þannig að þeim aðgerðum sem hún boðar verði hrint í framkvæmd sem fyrst. Er slík afgreiðsla ekki einmitt tækifæri fyrir þingheim til að sýna í verki að alvara er að baki því að ástunda ný vinnubrögð í þinginu þar sem samvinna og samráð eru í lykilhlutverki?

Virðulegi forseti. Við Íslendingar megum aldrei gleyma því að þrátt fyrir erfiða stöðu eigum við mikil tækifæri, margar sterkar stoðir sem við munum byggja á til framtíðar. Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð, menntunarstigið er hátt og grunnstoðir samfélagsins eru sterkar þrátt fyrir allt. Sú gnótt af hreinu ferskvatni sem við búum að er auðlind sem ekki skal vanmeta og þá eigum við mikið af góðu ræktunarlandi, enn meira af ónýttu ræktunarlandi sem kemur til með að nýtast okkur vel í framtíðinni svo sem við ræktun repju til lífdísilframleiðslu, ræktun erfðabreytts byggs til lyfjagerðar og svo mætti lengi telja. Sjávarútvegurinn er sterkur, enda fiskurinn okkar sá besti í heimi en gæta þarf að því að hlúa að greininni í stað þess að ráðast að henni fyrningarhugmyndum.

Orkan í iðrum jarðar er gríðarleg auðlind og mikil tækifæri eru til frekari gjaldeyrissköpunar í orkufrekum iðnaði. Erlendir fjárfestar hafa áhuga en hlutverk stjórnvalda er að skapa þau skilyrði svo að hægt sé að hrinda hugmyndum í framkvæmd, stjórnvöld eiga ekki að þvælast þar fyrir. Virðulegi forseti. Niðurskurður ríkisútgjalda er sársaukafullur og allir íbúar landsins koma til með að finna fyrir honum en ef vel er á málum haldið tekur efnahagslægðin enda fyrr en ella. Við niðurskurð skiptir rétt forgangsröðun miklu máli og að gætt sé jafnræðis í aðgerðum. Forgangsatriði er að þjónusta sem snýr að öruggi landsmanna sé í forgrunni.

Við Íslendingar þurfum nú að snúa bökum saman og leggja á hinn úfna sæ sem fram undan er. Ef við leggjumst saman á árarnar munum við komast að settu marki fyrr en ella og markmiðið er að búa svo um hnútana að Íslendingar framtíðarinnar fái alist upp við bestu mögulegu lífsgæði í frjálsu og opnu landi þar sem tækifæri einstaklingsins til að njóta afraksturs eigin verka er í forgrunni.