137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:21]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem hér eru til umræðu eru settar fram af illri nauðsyn sem fyrsti áfangi af mörgum á þeirri vegferð að ná aftur jafnvægi í ríkisfjármálum eftir það þunga högg sem hrun fjármálakerfisins greiddi þjóðarbúskapnum sl. haust.

Ég vil þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þau jákvæðu merki sem hann sér í þessu frumvarpi. Hann telur að það eyði óvissunni að vissu leyti en mig langar að gera athugasemd við það sem hv. þingmaður nefndi í samhengi við framgöngu stjórnvalda í aðdraganda alþingiskosninganna árið 2007. Mér eru mjög minnisstæð útgjöld ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem þá sat að völdum sem þeir efndu til á fyrri hluta árs 2007, einmitt í aðdraganda alþingiskosninga á vormánuðum þess árs. Þetta voru útgjöld upp á tugi milljarða á velflestum málasviðum á þeim tíma þegar þenslan í samfélaginu var í hámarki en þáverandi stjórnarflokkar létu einskis ófreistað að úthluta fé skattborgaranna í ýmis verkefni á þeim tíma. Það er ámælisvert og því miður held ég að velflestir stjórnmálaflokkar í landinu fyrr og nú hafi gert sig seka um hegðun af þessu tagi í aðdraganda kosninga og væri gleðilegt að sjá það þing sem nú situr að völdum, fjölmarga nýja þingmenn, ráða bug á vinnubrögðum af þessu tagi.

Sömuleiðis höfum við horft upp á það á liðnum árum að stofnanir hafa farið langt fram úr fjárheimildum, brotið fyrirmæli fjárlaga þannig að nemur tugum milljarða, þetta var á þriðja tug milljarða á sl. ári. Það er fjármálastjórn sem við höfum engin efni á við núverandi aðstæður í fjármálum ríkisins.