137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það væri fróðlegt að fá skýringar á því hjá hv. þingmanni hvað hv. þingmaður telur háar tekjur ef álag á tekjur einstaklings yfir 700 þús. kr. telst ekki hátekjuskattur eða hátekjuálag vegna þess að 700 þús. kr. eru væntanlega þá lágar tekjur að mati hv. þingmanns. Því hef ég svo ég segi ekki pólitískan en a.m.k. fræðilegan áhuga á því að vita hvað hv. þingmaður telur nægjanlega háar tekjur til að hægt sé að réttlæta það að kalla eitthvert skattaálag ofan við þau mörk hátekjuskatt.

Varðandi það sem vissulega getur verið tilvikið að um fyrirvinnu sé að ræða sem hafi ein allar tekjurnar má benda á að ef um hjón eða samskattaða aðila er að ræða þá nýtist persónufrádráttur beggja þannig að skattbyrðin í þeim tilvikum er sem því nemur lægri að sjálfsögðu.

Varðandi það sem rætt var af hálfu hv. þingmanns um afdráttarvextina er sú breyting gerð hér á, ef ég kann þetta rétt sem ég ætla að vona að sé, að nú er búið að taka inn í lagatextann sjálfan undanþægt ákvæði sem einfaldlega fellir skilaskylduna og skattskylduna niður ef um er að ræða vaxtagreiðslur frá landinu til lands sem við erum með tvísköttunarsamning við. Þá er alls ekki um skattskyldu og skattskil að ræða í þeim tilvikum og reynir ekki á endurgreiðslu eða annað því um líkt þannig að hér er lögð til miklum mun einfaldari útgáfa af þessu ákvæði. Ég held að ég fari örugglega rétt með að svona var þessu ekki háttað í frumvarpinu í vetur. Þetta hefur verið skoðað rækilega og menn telja að þessi einfalda útgáfa af málinu eigi að vera án nokkurra teljandi vandkvæða og þjónar þá fyrst og fremst þeim tilgangi að við fáum skatttekjur af vöxtum sem fara út fyrir slík svæði til aflandssvæða eða í einhverjum tilvikum til landa sem við höfum ekki náð tvísköttunarsamningum við.