137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[15:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er eitt dæmi um þær fullyrðingar sem voru hraktar í nefndinni. Því var ítrekað haldið fram að þarna væri verið að færa íslenskar reglur til samræmis við það sem gerist annars staðar og það er einfaldlega rangt. Í umsögnum sem fram komu — ég er hér með eina sem ég get afhent hæstv. ráðherra að loknu þessu andsvari en þar segir, með leyfi forseta:

„Þvert á það sem segir í frumvarpinu er því staðan sú að skattlagning vaxtagreiðslna úr landi heyrir til undantekninga í skattalöggjöf í okkar heimshluta.“

Þetta er nákvæmlega dæmi um það sem gagnrýnt var í nefndinni og ég heyri að hæstv. fjármálaráðherra endurtekur hér.

Varðandi mennina tvo sem unnu hlið við hlið með 900 þús. kr. á mánuði þá er ég algerlega sammála hæstv. ráðherra að sá sem er án atvinnu er í slæmri stöðu. En þarna er nefnilega nákvæmlega það sem ég tel vera hugmyndafræðilega muninn á okkur hæstv. ráðherra, hvernig hann ætlar að leysa málið. Hann ætlar að leysa málið með því að taka meira af þeim sem hefur atvinnu til að láta þann atvinnulausa fá. Ég lít þannig á málið að aðalverkefni okkar í þessari stöðu sé að koma manninum sem missti vinnuna í atvinnu. Þannig eigum við að horfa á þetta mál. Við eigum ekki að hugsa um hvernig við getum fært til tekjur frá einum stað til annars. Við eigum að líta á þetta sem tímabundna stöðu og við eigum að koma öllum vinnufúsum höndum til vinnu á ný. Það gerum við ekki með því að kæfa atvinnulífið í sköttum. Það er bara þannig, atvinnulífið ber það ekki og alls ekki um þessar mundir. Ég hvet þess vegna hæstv. fjármálaráðherra til að skoða þetta mál vel og hlusta á athugasemdir umsagnaraðila (Forseti hringir.) sem ég veit og geri ráð fyrir að komi með sömu athugasemdir inn í nefndina varðandi afdráttarskattana. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þetta til skoðunar.