137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann að á bak við þær tölur sem birtar eru í yfirlitstöflum, t.d. um aðhald í rekstri á þessu ári, liggja útfærðar áætlanir um sparnað þar sem honum hefur verið skipt niður á ráðuneyti og málaflokka og þegar er hafin vinna á grundvelli þess að þeim árangri ætla menn sér að ná í ríkisfjármálum á þessu ári. Þessu hefur verið útdeilt og nú verður unnið samkvæmt því.

Í öðru lagi varðandi kostnað hefur hann verið minnkaður hressilega og er áfram unnið að því. Það er athyglisvert að skoða keyrslur frá septembermánuði sl. og aftur núna í mars og sjá að ýmsir kostnaðarliðir hjá ríkinu hafa lækkað umtalsvert nú þegar, eins og yfirvinnulaun og ýmsar kostnaðargreiðslur, á sama tíma og dagvinnulaun eru um það bil þau sömu og þau voru í september og aftur nú í mars. Reyndar er heildarkostnaður 1% lægri vegna dagvinnulauna væntanlega vegna þess að stöðugildum hefur fækkað nokkuð. Þá er kostnaður vegna kostnaðargreiðslna tugum prósenta lægri og yfirvinnugreiðslur sömuleiðis talsvert lægri.

Varðandi hvað áætlað er að tekjur af hátekjuskatti gefi er byggt þar á rauntölum, þ.e. keyrslum frá skattinum frá nýliðnum mánuðum, þannig að það er besta fáanlegt mat á því hvað þær eigi að gefa. Veruleikinn er sá, og það gleður örugglega marga hér í salnum, að það er enn nokkuð mikið um umtalsvert há laun en breytileikinn fer vaxandi.

Varðandi hert skatteftirlit held ég að það sé margreynt að skatteftirlitsstarfsmenn vinna yfirleitt vel fyrir kaupinu sínu. Ég hitti einn slíkan í lítilli deild sem starfar á Akureyri fyrir Norður- og Austurland og hann sagðist vera stoltur af því að árangur sinn í starfi fyrsta árið hefði verið sá að hann væri búinn að vinna fyrir kaupinu sínu næstu 10–20 árin.