137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal í stuttu máli gera grein fyrir þeim tillögum sem eru í frumvarpinu og varða málefnasvið dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Það liggur fyrir að útgjöld vegna gjafsóknar eru töluverð og á niðurskurðartímum verður að líta til þeirra atriða sem hið opinbera ætlar að standa straum af. Við teljum að sá möguleiki sé í stöðunni að setja þak á gjafsókn í tilteknum málaflokkum. Það er að vísu heimild núna fyrir gjafsóknarnefnd að takmarka gjafsókn í einstökum málum en við leggjum til að það verði í ákveðnum málaflokkum. Það gæti t.d. haft áhrif á ýmiss konar álitsgerðir í forsjármálum. Þar geta álitsgerðir hlaupið yfir 1 milljón kr. og kannski farið vel yfir þá fjárhæð. Við teljum að með því að setja þak á gjafsókn í einstökum málaflokkum sé unnt að nýta peningana betur og að réttlætinu sé þjónað engu að síður.

Hvað varðar þóknun til verjenda og réttargæslumanna hefur það legið lengi fyrir að þessi liður i útgjöldum ráðuneytisins hefur verið okkur þungur baggi. Ég held að ég verði að koma aftur upp í andsvari til að fá tíma til að svara því. Það sem kemur til greina er fyrst að bjóða út þessa þjónustu. Það tel ég kannski ekki vera mjög góðan kost í stöðunni heldur leggjum við til að það verði gert með þessum hætti. Það er mjög mikilvægt að annar sakarkostnaðar verði athugaður með sama hætti, þ.e. matsgerðir, sakhæfisvottorð, skýrslur og hvað eina og einnig vil ég geta þess að þegar hefur verið ráðist í útboð vegna rannsókna- og sýnatöku.