137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu og ég veit að hún ætlar að svara öðrum atriðum í síðara andsvari. Ég tek fram að ég hef verið þeirrar skoðunar að ástæða sé til að takmarka kostnað vegna gjafsókna og hef tekið þátt í að gera lagabreytingar í þeim anda. Í grundvallaratriðum er ég þeirrar skoðunar að einstaklingar sem eiga í dómsmálum eigi að bera kostnað af því sjálfir og hitt eigi að vera undantekningar þannig að ég er ekki þeirrar skoðunar að einstaklingar í dómsmálum geti almennt reiknað með að vera studdir af hinu opinbera. Það eiga að vera undantekningar sem það á við um.

Hins vegar verðum við að skoða hvernig hægt sé að gera þetta með sanngjörnum hætti og ég geri ráð fyrir því að hv. allsherjarnefnd fái þennan þátt til meðferðar þegar við fjöllum um það í þinginu. Sama á við um atriði sem varða lög um meðferð sakamála, um þóknun verjenda og réttargæslumanna. Þar er grundvallaratriðið eins og alltaf að það þarf að gæta þess að ekki sé verið að skerða réttaröryggi. Það hefur orðið þróun að fleiri — hvað eigum við að segja — það hefur stækkað sá hópur sem getur leitað réttaraðstoðar með þessum hætti og það þarf að endurskoða það en það þarf að gera með svolítið heildstæðum hætti til þess að menn átti sig á því hvaða afleiðingar hlutirnir hafa.

Ég endurtek síðan spurningar mínar um sóknargjöldin og lög um greiðslur til þolenda afbrota sem hæstv. dómsmálaráðherra átti eftir að svara.