137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ég var svo sem ekki að efast um að ríkisstjórnin hefði haft ærinn starfa á minnihlutatímabili sínu en ég velti því fyrir mér af hverju sú vinna sem við erum að sjá afraksturinn af núna hefði ekki verið sett í hærri forgang á þeim tíma og hefði þá komið fyrr fram, til að mynda fljótlega eftir kosningar. Jafnvel hefði mátt velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið eðlilegt að það hefði verið sagt frá því sem gera þyrfti fyrir kosningar þannig að kjósendur í landinu hefðu vitað að hverju þeir gengu. Það virðist vera að hér sé að skapast ákveðin gjá á milli þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar og jafnvel milli þjóðarinnar og þingsins eins og stundum hefur verið sagt. Það er hugsanlegt að koma hefði mátt í veg fyrir þann trúnaðarbrest sem kannski er að verða á milli þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar ef menn hefðu sýnt meira á spilin fyrir kosningar.

Ég fagna því að þetta mál, um reiknað endurgjald á þá sem hafa fulla atvinnu af því að sýsla með peninga, hafi verið skoðað en finnst það þó leiðigjarnt að það hafi ekki verið hægt að koma því hér fyrr. Ég tel að það sé hin fullkomna jafnaðaraðgerð og hef eiginlega aldrei skilið af hverju menn sitja ekki við sama borð hvað það varðar.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi með tekjur og útgjöld sveitarfélaga, þá er það í það minnsta ágætt að jöfnunarsjóðurinn skerðist ekki af þessum sökum, mér skilst að hann lækki nóg samt.