137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig alveg hárrétt að það er nær að orða það þannig að þær ráðstafanir sem koma Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til góða í gegnum þá hlutdeild af tekjum ríkissjóðs sem hann fær, 2,12%, ef ég man rétt, það má segja að þær komi þannig út að tekjur jöfnunarsjóðs dragist þá minna saman en ella sem því nemur en það kemur út á eitt að það kemur sveitarfélögunum til góða í þeim mæli. Mesti búhnykkur sveitarfélaganna á þessu ári verður væntanlega útsvarshlutinn af skattlagningu á útgreiðslu séreignarsparnaðar sem verður umtalsverð upphæð sem sveitarfélögin njóta mjög góðs af.

Varðandi tímasetningar hefði þetta frumvarp út af fyrir sig getað komið fram einhverjum dögum fyrr ef menn hefðu unnið það einangrað og sér og það hefði annars vegar ekki verið í því víðtæka samráði við ýmsa aðila sem raun ber vitni. Hins vegar er það svo að það er hluti af miklu stærri heildaráætlun sem tekur til ríkisfjármálanna og efnahagsmálanna allt fram til ársins 2013 og birtist vonandi innan skamms á borðum þingmanna. Við töldum mikilvægt að reyna að láta þetta fylgjast að eins mikið og kostur væri þannig að menn sæju sem fyrst heildarmyndina. Ég vona að það komi ekki að sök þó að þetta frumvarp sé á ferðinni núna, rétt fyrir 20. júní, og að það nái gildistöku vel fyrir mánaðamót þannig að gildistökuákvæðin, sem auðvitað skipta miklu máli, geti staðið. Það er auðvitað búið að vera viðamikið starf á bak við þetta mál og reyndar er það svo að það hefur verið ýmislegt fleira að sýsla í fjármálaráðuneytinu undanfarna daga ekki síst, eins og ég veit að hv. þingmaður getur getið sér til um, t.d. samanber það mál sem var til umræðu í gær.