137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þetta sé einfalt verkefni sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og við sjáum aðeins á spilin í dag í þessari umræðu, hvað hún hyggst gera gagnvart þessu verkefni og mér dettur heldur ekki í hug að flytja þá ræðu úr þessum ræðustól þar sem ég mundi hafa allt á hornum mér varðandi einstaka liði þessarar tillögugerðar. Þetta er flókið mál og viðamikið og ég held að maður gæti út af fyrir sig, ef maður tæki hvern einstakan lið þá hefði maður alltaf forsendur til þess að hafa allt á hornum sér. Maður gæti gagnrýnt einstakar skattahækkanir eða einstakan niðurskurð en maður þarf að sjá heildarmyndina eins og hefur verið rætt mjög mikið í dag. Ég vil nota tækifærið og auglýsa enn þá eftir henni vegna þess að það er mjög mikilvægt.

Hér sér maður eins og hluta af varnarleiknum, maður sér hálfa vörnina. Maður þarf að sjá hana alla og síðan þarf maður að sjá sóknarleikinn. Maður þarf að sjá hvar á að örva hagkerfið, hvernig á að gera það, hvernig á að fá fjármuni inn í landið, hvernig á að fá fjármuni á hreyfingu sem eru í landinu, hvernig á að virkja þá fjármuni til framkvæmda og skapa atvinnu og þar með auka tekjur. Þetta á maður eftir að sjá. Auðvitað finnst manni glatað að sjá tillögur enn einu sinni þar sem er vegið að ellilífeyrisþegum og dregið saman í vegaframkvæmdum. Þetta er auðvitað eitthvað sem maður vill ekki sjá en ég hef engar miklu betri hugmyndir en þessar á þessum tímapunkti. Ég vona hins vegar og geri ráð fyrir að angar þessa máls komi til umræðu í félags- og tryggingamálanefnd og þar fái maður að sjá útreikninga sem liggja til grundvallar niðurskurði í velferðarmálum að þessu sinni. Ég vona að það sé satt og rétt sem stendur í athugasemdum með frumvarpinu að það sé leitast við að vernda kjör þeirra sem hafa allra minnstu tekjurnar í því kerfi. Ég kýs að tjá mig ekki um þessa tillögu frekar fyrr en ég hef séð alla útreikninga.

Það eru fleiri spurningar sem vakna þegar maður les þetta við fyrstu yfirferð. Maður hefði viljað sjá meiri niðurskurð í rekstri hins opinbera á kostnað niðurskurðar í velferðarmálum, ég hefði viljað sjá það. Ég spyr, og ég sé að hér er formaður fjárlaganefndar í salnum, af hverju er ekki hægt að gera það? Svo hefði ég viljað sjá og ég vona að maður fái að sjá það á einhverjum tímapunkti, hvernig aðrar tillögur til tekjuöflunar og niðurskurðar koma út í samanburði. Það hefur t.d. verið lögð fram tillaga um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði frekar en útgreiðslur. Ég hefði viljað sjá í þeim samanburði öllum saman þá útreikninga og hvaða tekjur sú leið skapar og hvaða gallar eru á henni. Þó að ég skilji vel að það sé ekki í athugasemdum með þessu frumvarpi þá held ég að það væri gaman að fá þau gögn upp á borðið á einhverjum tímapunkti. Kannski er ég að tala um það sem ég hef gert áður í þessum sal, um mikilvægi þess að við höfum einhvers konar óháða þjóðhagsstofnun eða eitthvað slíkt þar sem hægt er að biðja um svona upplýsingar.

Svo mundi ég vilja sjá í athugasemdum með frumvarpinu og í vinnunni í nefndinni einhverja útreikninga á þeim áhrifum sem hækkun tryggingagjalds hefur, ekki síst á sveitarfélögin. Þetta lítur dálítið út eins og einfaldlega sé verið að færa byrðar frá hinu opinbera til annars stjórnsýslustigs að verulegu leyti og þetta eru líka álögur á fyrirtæki sem eru að stóru leyti til í eigu ríkisins þar sem menn mundu vilja sjá aðeins meiri upplýsingar um þetta. Svo enn og aftur er dregið úr samgönguframkvæmdum en þá lýsir maður líka eftir því að fá að fara að sjá hugmyndir um einkaframkvæmdir í samgöngum sem auðvitað spilar rullu í heildarmyndinni hvað það varðar.

Það eru fjölmargar spurningar sem vakna sem gera manni erfitt fyrir að taka einhverja einarða eða staðfasta afstöðu til frumvarpsins í heild sinni. Ég mun þó segja að ég skil vel að verkefnið er erfitt og það er yfirgripsmikið og það er um að gera að allir þingmenn reyni að halda aftur af öllum tilburðum til popúlisma á þessum tímapunkti og sýni ábyrgð. En ég ætla að gera eina athugasemd við hvernig athugasemdir við frumvarpið eru settar fram og sérstaklega við útgangspunktinn. Það hefur orðið til dálítið klassísk útlegging á því af hverju við erum í þessum vanda. Í fallinu drógu bankarnir með sér fjölda annarra fyrirtækja sem ánetjast höfðu áhættusækinni fjármálastarfsemi og sett ábatasama og heilbrigða starfsemi að veði fyrir skammtímagróðavon og svoleiðis. Það eru slegin þessi hefðbundnu stef um græðgi og áhættusækni sem vissulega er rétt og hér er sem sagt lagt út af því að það þurfi að fara í þessar aðgerðir út af tekjufalli, vegna þess að það hafi orðið tekjuhrun og það held ég sé líka rétt. En ég held að þetta sé að hluta til einföldun og hefur aðeins verið tæpt á því að útgjöld ríkisins hafi vaxið mjög á undanförnum árum en það hefur einkum verið talað um góðæristímann, sem ég held að sé til 2007 og kannski frá aldamótum. En þegar maður skoðar töflurnar sem eru í athugasemdum á frumvarpinu, t.d. á bls. 9, þá sér maður að heildarútgjöld ríkissjóðs sem prósenta af vergri landsframleiðslu voru í nokkuð góðu jafnvægi þangað til þau hækka frá 2007–2008, eru í kringum 30% af vergri landsframleiðslu, og fara svo upp í 32% 2008 og þetta er fyrir hrun. Svo er hrun árið 2009 þá rýkur náttúrlega allt upp. Sama er með tekjurnar, þær dragast allt í einu mjög mikið saman 2007–2008, fyrir hrun, og svo dragast þær enn meira saman 2009. Það virðist eins og rekstur ríkissjóðs hvað þetta varðar, jafnvægi á gjöldum og tekjum, hafi verið í nokkuð góðu jafnvægi 2004, 2005, 2006 og svo gerist eitthvað sem kemur ekki á óvart á því margumrædda ári 2007, virðast útgjöld ríkisins fara á dálítið flug, satt að segja. Ég gerði það að gamni mínu áðan meðan ég beið eftir að að mér kæmi í þessari umræðu að taka saman og skoða fjárlögin fyrir yfirstandandi ár og taka saman upplýsingar um útgjaldaaukningu einstakra ráðuneyta frá reikningi 2007 yfir í fjárlög 2009 og útgjaldahækkunin að meðaltali frá reikningi 2007 að fjárlögum 2009 er 28%, 28% útgjaldaaukning. Mér finnst það satt að segja dálítið mikið.

Launaliðurinn í útgjöldum hins opinbera á þessum tíma frá reikningi 2007 til fjárlaga 2009 hækkar um 20%. Útgjöldin hækka því um 8% umfram það sem laun hækkuðu. Það er líka athyglisvert og ég veit ekki hverju það sætir að það virðist vera ákveðinn rauður þráður að þau ráðuneyti sem Samfylkingin fór með, sem kom ný inn í ríkisstjórn 2007 og stóð að fjárlagagerð 2008, útgjöld þeirra ráðuneyta hækka að meðaltali um 40% á meðan útgjöld annarra ráðuneyta hækkuðu á þessum tíma um 17%. Þetta er verulegur munur og … (Gripið fram í: Varst þú ekki í Samfylkingunni?) Ég var í Samfylkingunni þá og það er einmitt það sem ég ætlaði að segja næst að ég sagði mig líka úr Samfylkingunni á ákveðnum tímapunkti og orðið sem ég notaði af því tilefni þegar ég sagði mig úr Samfylkingunni var fyrirhyggjuleysi. Ég var ekki sáttur við það fyrirhyggjuleysi sem einkenndi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og þar var ég aðallega að tala um fyrirhyggjuleysið sem einkenndi það starf í aðdraganda bankahrunsins og nú sýnist mér að ákveðið fyrirhyggjuleysi hafi einkennt a.m.k. ráðuneyti Samfylkingarinnar á þessum tíma þar sem útgjöld hækkuðu að meðaltali um 40% á meðan útgjöld annarra ráðuneyta hækkuðu um 17%. Á þessu kunna að vera einhverjar skýringar. Til dæmis var tekin meðvituð ákvörðun um að hækka framlög til samgöngumála verulega og ég held að kosningarnar 2007 hafi náttúrlega verið rosalega „2007“. Það var farið fram, allir flokkar með verulega útgjaldaaukningu að leiðarljósi og það var gefið verulega í í samgöngumálum. Það var líka gefið verulega í í velferðarmálum og það útskýrði þetta að hluta til og það útskýrir auðvitað líka núna — og nú kem ég að því sem ég er að tala um að þetta er auðvitað líka rót vandans sem við erum í núna. Það er ekki bara tekjufallið. Það var farið í verulega útgjaldaaukningu 2007 og það segir í athugasemdum með frumvarpinu að verið sé að stíga skref til baka að mörgu leyti.

Þá kem ég að fyrirhyggjuleysinu sem ég talaði um af því tilefni þegar ég sagði mig úr Samfylkingunni. Það voru mjög margir hagfræðingar, mjög margir stjórnmálamenn, m.a. flokksmenn þess flokks sem ég gekk til liðs við, sem sögðu á þessum tímapunkti að það þyrfti að vera aðhald í ríkisrekstri, að í góðærinu þegar það náði hápunkti 2007 þá þyrfti aðhald, þá þyrfti að draga saman. Það var ekki gert nema kannski að einhverjum hluta til. Þetta sýnir auðvitað bara hversu erfitt er að vera til og hversu margslungnar ástæður og rætur eru á þeim vanda sem við erum í núna og sýnir líka nauðsyn þess að við reynum að horfa fram á við á hverjum tímapunkti, að við reynum að marka okkur einhverja heildarstefnu. Við eigum að hlusta á öll viðvörunarorð núna, t.d. um að skattahækkanir af ákveðnu tagi geti dregið úr neyslu, haft letjandi áhrif á hagkerfið og annað slíkt. Við eigum líka að vera fólk til að reikna út þessi áhrif og hafa vaðið fyrir neðan okkur vegna þess að sagan sýnir, eins og ég hef rakið, að við höfum ekki verið fólk til að gera það hingað til að mjög mörgu leyti.