137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir ánægju með það að ráðherra efnahagsmála skuli vera kominn til umræðunnar því að vissulega snertir þessi umræða efnahagsmálin í víðu samhengi og því er mikilvægt að sá ráðherra sem ber ábyrgð á efnahagsmálum sé viðstaddur slíka umræðu.

Mig langar í upphafi umræðunnar að benda á að það sem við ræðum hér fjallar fyrst og fremst um það að verið er að auka álögur á fólk og fyrirtæki. Það er lítið um niðurskurð sem áður hefur verið boðaður. Við höfum kallað eftir því um margra mánaða skeið að fá að sjá efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og þetta eru væntanlega fyrstu drögin að því, en það sem er lagt á borð fyrir okkur hér fjallar nær ekkert um árið 2009, þ.e. þá kröfu okkar að við ræðum á þinginu fjárlög ársins 2009 þar sem forsendur þeirra fjárlaga eru vægast sagt brotnar, það stendur í raun og veru ekki steinn yfir steini þegar maður les fjárlögin sem voru samin fyrir áramót og taka mið af því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem er staddur hér í hliðarsal: Stendur virkilega ekki til af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra að leggja fram á sumarþingi ný fjárlög fyrir árið 2009, þ.e. fjáraukalög? Það er alveg ljóst að forsendur þeirra fjárlaga sem verið er að vinna eftir standast engan veginn. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að fjárlagavaldið og heimildirnar koma frá Alþingi Íslendinga. Þær liggja ekki í ráðuneytum hjá framkvæmdarvaldinu. Þess vegna spyr ég: Ætlar hæstv. ráðherra að leggja fram á sumarþinginu — og mér er alveg sama þó að ég sé hérna fram í ágúst — einhverjar raunhæfar tillögur vegna fjárlaga ársins 2009? Það er mikilvægt að fá svar við þessum spurningum.

Eins og ég sagði áðan ræðum við hér frumvarp sem eykur álögur á fólk og fyrirtæki ofan í himinháa stýrivexti, ofan í eina þá mestu kreppu sem við höfum lent í. Hækkun á neyslusköttum — sem er reyndar misræmi í hér í þessu plaggi, annars vegar er talað um að þetta hafi áhrif til hækkunar á vísitölu um 0,25% og hins vegar 0,35% — leiðir til þess að skuldir heimila og fyrirtækja hækka um 4–5 þúsund millj. kr. Ef við bætum þar við hækkun á eldsneyti, áfengi og tóbaki eru það um 8 þúsund milljónir. Ríkisstjórnin hefur því núna á nokkrum dögum hækkað skuldir heimilanna í landinu um 12–13 þúsund millj. kr. Það er þess vegna ekki óeðlilegt að við sem höfum talað fyrir því að leiðrétta þurfi skuldir heimilanna, þ.e. að lækka þær, ekki hækka þær, ræðum aðeins um þessa stöðu málsins.

Hvar eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að koma til móts við skuldug heimili, þ.e. áður en allt er komið í kaldakol? Er það virkilega framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar að horfa á eftir þúsundum íslenskra fjölskyldna inn í héraðsdómstóla þar sem skipaður verður tilsjónarmaður yfir viðkomandi fjölskyldum? Þetta er afar váleg þróun að mínu viti. Því kallaði ég eftir hæstv. forsætisráðherra til að heyra sjónarmið hennar í þessum efnum, af því að hér er verið að hækka skuldir heimilanna, hvort það standi í raun og veru ekki til að lækka með almennri aðgerð skuldastöðu íslenskra heimila sem bera enga ábyrgð á þeim glæfraskap sem íslenskir útrásarvíkingar hafa sýnt á undangengnum mánuðum og árum. Enga ábyrgð, hér er um heiðarlegt fólk að ræða.

Á annan stað langar mig að gera verulega athugasemd við það sem stendur á bls. 15 í frumvarpinu. Þar eru almennar athugasemdir um útgjaldahlið þar sem fjallað er um þátt almannatrygginga, en frumvarpinu er verið að leggja til að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3.650 millj. kr. á ári. Hér er mikill fagurgali um hve margt gott hafi verið gert í málaflokki aldraðra og öryrkja á undangengnum tveimur árum. Vel er það, en ríkisstjórnin gleymir að benda á það sem miður hefur farið í þeim málaflokki. Nú vil ég rifja það upp fyrir hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra hvað ríkisstjórn síðustu tveggja ára hefur gert gagnvart öldruðum og öryrkjum í samfélaginu. Ég er með það, skjalfest úr ræðustóli Alþingis, hver þróunin hefur verið og ég ætla að vitna í umræðu sem fór fram þann 8. maí árið 2008, þ.e. fyrir um ári síðan. Ég ætla að vitna orðrétt í ræðu sem ég hélt þann dag, með leyfi forseta:

„Mikill áfangi náðist árið 2006 af hálfu aldraðra og öryrkja í viðræðum við ríkisstjórnina hvað það varðar að taka upp nýtt viðmið sem tengdist gerð kjarasamninga og var miðað við svokallaða tekjudagvinnutryggingu launafólks en ekki lægsta taxta verkafólks eins og áður var gert. Þetta var mikið fagnaðarefni sumarið 2006, aldraðir og öryrkjar fögnuðu þessum áfanga. En nú árið 2008 er búið að lækka viðmiðið á ný hjá nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, fór mjög vel yfir það á fundi félags- og tryggingamálanefndar að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að lækka þetta viðmið, kostaði þessa hópa um 3.600 millj. kr.“

Þetta er þann 8. maí árið 2008.

Sama ár ákvað ríkisstjórnin að sveigja frá því að bæta þessum hópum þá miklu rýrnun sem þá hafði átt sér stað vegna verðbólgu. Og í fylgiriti um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lagði fram þá, þar sem hæstv. forsætisráðherra var þá hæstv. félagsmálaráðherra, stóð sem rökstuðningur, með leyfi forseta:

„Einnig er gert ráð fyrir því í þessum hluta frumvarpsins að hækkun á bótum almannatrygginga um næstu áramót verði óbreytt frá forsendum fjárlagafrumvarpsins eða 9,6% fremur en að miða við vísitölu neysluverðs. Er áætlað að þannig verði komið í veg fyrir um 5,9 milljarða kr. aukningu útgjalda.“

Nú skulum við leggja þessar þrjár tölur saman. Með þeim ákvörðunum sem hæstv. forsætisráðherra hefur tekið í tíð sinni í ríkisstjórn er búið að skerða kjör aldraðra og öryrkja með þessum hætti um 13.150 millj. kr. Af hverju er ekkert getið um þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fagurgalanum um það góða sem hefur verið gert? Eigum við ekki að gæta ýtrustu sanngirni og sýna á báðar hliðar þessa penings?

Ég er alveg tilbúinn að viðurkenna að ýmislegt jákvætt hefur verið gert en þegar ríkisstjórnin reynir, greinilega viljandi, að skrumskæla raunveruleikann með þessum hætti, því að hér er um blákaldar staðreyndir að ræða, er eðlilegt að menn hækki róminn í ræðustóli Alþingis og það er eðlilegt, hæstv. fjármálaráðherra, að aldraðir og öryrkjar mótmæli því hér úti á Austurvelli að ríkisstjórnin skuli hafa staðið að málum sem þessum, ríkisstjórnin sem gaf sig út fyrir það í aðdraganda síðustu kosninga að þetta væru hóparnir sem mættu ekki við því að kjör þeirra yrðu skert. Ég spyr: Er byrjað á breiðustu bökunum hér? Nei, aldraðir og öryrkjar eru ekki tekjuhæstu hópar samfélagsins. Með þessu frumvarpi sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir leggja fram er verið að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3.650 millj. kr. á ári ofan á þá ósvinnu sem áður hafði verið unnin og það meira að segja á góðæristímum þegar viðmiðum við gerð kjarasamninga var breytt gagnvart þessum hópum. Það er enginn heilagur í þessari umræðu og hið sanna skal koma hér fram að með þessum ákvörðunum hefur verið vegið að kjörum aldraðra og öryrkja.

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst það yfirgengilegt að halda þessum málflutningi fram í þingskjölum þar sem einungis önnur hliðin er sýnd af sannleikanum, bara það sem þægilegt er fyrir ríkisstjórnina. Af hverju í ósköpunum getur ríkisstjórnin ekki gætt sannmælis í því og sagt nákvæmlega frá því hvað hún hefur verið að aðhafast á síðustu vikum og mánuðum? Og nú get ég ekki gagnrýnt hæstv. fjármálaráðherra mjög mikið þegar ég fyrir yfir þessa sögu vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra var lengi vel í stjórnarandstöðu ásamt okkur framsóknarmönnum þar sem við gagnrýndum þáverandi ríkisstjórn harðlega fyrir þessar aðgerðir. Og það er þeim mun snautlegra að hæstv. fjármálaráðherra skuli leggja þennan stórasannleik fram í þinginu sem er einungis hálfsannleikur. Við skulum segja alla söguna eins og hún er, því að ef við ætlum að fara saman í gegnum þessa erfiðu tíma verðum við að búa að stjórnvöldum sem segja rétt frá hlutunum. Það þýðir ekki að segja bara frá því sem gott hefur verið gert, við verðum líka að segja frá hinni hliðinni. (Gripið fram í: Hvað viltu fara langt aftur í tímann?)

Frú forseti. Trúlega munum við lenda í gamalkunnri umræðu hérna, að hæstv. ráðherrar og jafnvel sumir þingmenn fari að tala um það hvað gerðist á árunum 1995 til 2007 og vilja ekkert ræða um hvað gerst hefur frá seinni hluta árs 2007, 2008 og núna árið 2009. Við erum að tala um núið, við erum að tala um fólk sem er í verulegum vandræðum. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem stýrir og er verkstjóri í þeirri ríkisstjórn sem gerði það að sínu fyrsta verki í kjölfar síðustu kosninga að fjölga ráðherrum um tvo þannig að Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð fengju nú fleiri þægilega stóla — slík framkvæmd og slík aðgerð kostar skattborgarana, kostar aldraða og öryrkja tugi milljóna króna — þegar þessir sömu ráðherrar koma svo fram og kynna harðan niðurskurð gagnvart þessum sömu hópum er eðlilegt að við spyrjum: Er ekki rétt að ríkisstjórnin byrji á því að taka til heima hjá sér? Hvar er sú jafnaðarstjórn sem boðar aðhald í rekstri, skerðingu á kjörum aldraðra og öryrkja og byrjar svo á því að fjölga ráðherrum um tvo? Það er eðlilegt að það sé hiti í mönnum yfir þessari staðreynd mála því að ríkisstjórnin hefur í raun og veru látið aðgerðaleysið eitt ráða för síðustu vikur og mánuði. Það er þess vegna sem við búum við hæstu stýrivexti í heimi og það er þess vegna sem kreppan er miklu, miklu dýpri en við hefðum annars þurft að búa við.

Ég vil minna hæstv. fjármálaráðherra á það, og ég veit að hann man vel eftir því, að þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram í febrúarmánuði síðastliðnum efnahagstillögur í 18 liðum sem hæstv. ráðherrar tóku að mörgu leyti vel í en því miður hefur nær engin af þeim tillögum enn komist til framkvæmda. Getur verið að það sé út af því að hún kemur frá Framsóknarflokknum? Erum við enn þá í þeim sandkassaleik að vegna þess að tillaga kemur frá einhverjum öðrum en eigin stjórnmálaflokki sé hún fyrir fram ómöguleg? Í hvers lags þjóðfélagi lifum við? Eru þessir sömu hæstv. ráðherrar ekki að tala fyrir samstöðu og samvinnu í samfélaginu? Ég spyr mig að því hvort þeir meini virkilega það sem þeir segja.

Ofan á allt þetta, þegar við ræðum frumvarp sem mun hækka skuldir heimila og fyrirtækja, sem mun hækka þær ofan á þær miklu skuldir sem fyrir eru, finnst mér ég ekki vera að umgangast fólk sem skilur raunveruleikann á réttan hátt. Við erum að tala fyrir því, mörg hér, að leiðrétta og lækka þurfi skuldir heimilanna, en því miður leggur ríkisstjórnin fram plagg sem hækkar skuldir heimilanna. Ég hlýt að spyrja: Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að gera fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu — við höfum ekki fengið nein almennileg svör hvað það varðar — til að blása kjark og þor í íslenska þjóð sem getur fyrst þjóða í heiminum komið sér út úr þessari kreppu? En þá þurfum við að búa við ríkisstjórn sem þorir að taka ákvarðanir og leggja fram róttækar tillögur til að koma til móts við þann vanda sem blasir við okkur.

Að lokum þetta, frú forseti: Við búum við ríkisstjórn sem nýlega hefur skrifað undir Icesave-skuldbindingar og það bíður þingmanna á hv. Alþingi að greiða atkvæði um þá undirskrift. Þessir hæstv. ráðherrar víluðu ekkert fyrir sér að semja um himinháa vexti upp á 5,5% sem mun þýða að á fyrsta ári verða vaxtagreiðslur íslenskra skattborgara 42 þúsund millj. kr. Á fundi með aðstoðarmanni fjármálaráðherra hjá okkur framsóknarmönnum spurði ég út í það hvort gerð hefði verið greiðsluáætlun til að kanna hvort íslenskt samfélag stæði undir þessu. Þá var mér tjáð af aðstoðarmanni hæstv. ráðherra að það væri verið að vinna þá áætlun. Sem sagt, menn unnu ekki að áætlunargerð áður en þeir skrifuðu undir heldur eftir á. Hvaða vit er í þessu? Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlast hann virkilega til þess að þingmenn á hv. Alþingi eigi að samþykkja samning þar sem lögsagan, ef við viljum sækja mál á grundvelli samningsins, er í Bretlandi þar sem ákvæði um uppsegjanleika á samningnum er þess efnis að ef við ætlum að fara að verja auðlindir okkar hér fái þessi ríki heimild til að gjaldfella samninginn og ganga að okkur? Er þetta forsvaranlegt og er það forsvaranlegt að tala um mörg hundruð milljarða króna skuldbindingu á meðan við erum tala um mjög sársaukafullar aðgerðir í ríkisrekstri hér á landi í hverri og einni stofnun þar sem við erum kannski að tala um eina, tvær eða þrjár milljónir á hverjum stað?

Tölurnar í þessu Icesave-samkomulagi eru svo gígantískar að það frumvarp sem við ræðum hér er hlægilegt í því samhengi en þó er það háalvarlegt (Forseti hringir.) fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og reyndar ríkissjóð líka.