137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra vék ekki nema í svo sem 5 sekúndur af þeim ræðutíma sem hún átti að vanda heimilanna og fyrirtækjanna. Áttar hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar sig ekki á því að þúsundir fjölskyldna eru komin með neikvæða eiginfjárstöðu? Undir næstu áramót er spáð milli 28 og 29 þúsund íslensk heimili verði komin með neikvæða eiginfjárstöðu. Og hæstv. forsætisráðherra eyddi nær öllum tíma sínum í að tala um löngu liðna tíma þegar ég óskaði eftir því að hæstv. ráðherra kæmi inn í umræðuna með eitthvað uppbyggilegt, einhverjar aðgerðir. Ég vildi óska þess, og ég segi það af mikilli einlægni, að forustumenn þessarar ríkisstjórnar hefðu, líkt og við framsóknarmenn, fólk í Borgarahreyfingunni og í Sjálfstæðisflokknum, meira að segja í Vinstri grænum — ég horfi hér á ágætan þingmann, hv. þm. Lilju Mósesdóttur — tekið undir þær hugmyndir sem við höfum lagt fram um að leiðrétta verði skuldir heimilanna með einhverjum hætti. Ég held að forustumenn þessarar ríkisstjórnar skilji það einfaldlega ekki að hægt er að gera það án þess að það komi við buddu ríkissjóðs. Það vantar einfaldlega upp á skilning hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar að hægt sé að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir til að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja í þessu landi. Skilningurinn er ekki fyrir hendi. Við höfum átt margar umræður um þetta og það er það skilningsleysi og aðgerðaleysi sem þjóðin horfir upp á sem leiðir til þess að skuldirnar hækka dag frá degi, mánuð frá mánuði. Það er sárt að horfa upp á það. Við komum m.a. fram með tillögur um það sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í, þ.e. hvort við gætum ekki sest niður, fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, og farið yfir þessar hugmyndir og séð hvort við getum náð einhverri lausn í málinu. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur gert slíkt. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega engin viðleitni til þess hjá þessum tveimur hæstv. ráðherrum að vinna með öðrum þingflokkum (Forseti hringir.) að þessum málum á Alþingi.