137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli því harkalega ef framkvæmdarvaldið ætlar að sniðganga löggjafarþing íslensku þjóðarinnar með því að leggja ekki fram fjáraukalagafrumvarp á þessu sumarþingi fyrir árið 2009, frumvarp sem er ekki pappírsins virði í dag og það eru allir sammála um það. Ég velti því fyrir mér: Hvar er fjárlagavaldið? Hvert sækja ráðherrarnir heimildir sínar? Það er til Alþingis og að sjálfsögðu eigum við að fara yfir þessi mál á þinginu þannig að ég mótmæli því.

Þegar hæstv. ráðherra talar um Icesave finnst mér hann sjálfur vera á hálum ís í þeim efnum vegna þess að aðstoðarmaður hæstv. ráðherra staðfesti á þingflokksfundi með okkur framsóknarmönnum að ekki hefði verið búið að gera greiðsluáætlun um það hvernig eða hvort þjóðin gæti staðið undir þessum skuldbindingum. Það er sem sagt fyrst skrifað undir samkomulagið og núna er framkvæmdarvaldið að reyna að búa til einhverja áætlun sem mun kannski líta vel út á blaði. En við höfum það staðfest að ekki var gerð áætlun um það hvort íslenska ríkið, skattborgararnir, gætu staðið undir þessum skuldbindingum. Og þegar hæstv. ráðherra gumar af lágum vöxtum vil ég minna á að einungis fyrsta árið eru vextir af þessu risaláni 42 þúsund milljónir kr. Fyrir þá upphæð væri hægt að reka háskólasamfélagið allt, alla háskólana í hátt í þrjú ár. Það staðfestist hér með þar sem ríkisstjórnin var ekki búin að gera greiðsluáætlun áður en skrifað var undir þetta Icesave-samkomulag að hún veit í raun og veru ekki til hvers hún skuldbindur íslenska þjóð og undir hverju við getum staðið til framtíðar og það er mjög alvarlegur hlutur.