137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom eiginlega að kjarna málsins þegar hún sagði að í því frumvarpi sem hér lægi fyrir kristölluðust pólitískar áherslur stjórnarflokkanna. Það er alveg rétt. Það er hækkun skatta en kjarkleysi í niðurskurði ríkisfjármála. Þar kristallast áherslur vinstri flokkanna.

Hv. þingmaður sagði að hún hefði ekki viljað að farið hefði verið inn í almannatryggingakerfið og hún minntist jafnframt á að hæstv. félagsmálaráðherra hygðist fara í endurskoðun á því kerfi. Það hófst í félags- og tryggingamálaráðherratíð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Verður haldið áfram með þá vinnu eða á að byrja eina ferðina enn frá grunni? Og ef við þurfum að fara í frekari niðurskurð, hvar sér þá hv. þm. Lilja Mósesdóttir tækifæri í niðurskurði ríkisfjármála, í hvaða ráðuneytum og með hvaða hætti?