137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:58]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var reyndar að vonast til þess að sjálfstæðismenn mundu aðstoða okkur ríkisstjórnarflokkana við að finna alla fituna (Gripið fram í.) sem er í ríkisútgjöldum. Í vinnu okkar við það að finna einhverja fitu komumst við aftur og aftur að því að það var ekki mikla fitu að finna og að við mundum neyðast til þess að fara frekar tekjuaukningarleiðina eða þá leið að auka á skattlagningu.

Hvað varðar almannatryggingakerfið er ætlunin að fara í endurskoðun þess með það að markmiði að tryggja velferð í gegnum aukna virkni. Það hafa m.a. komið upp hugmyndir þess efnis að í stað þess að hafa fjölda bótaflokka að hafa aðeins einn bótaflokk og að opna Atvinnuleysistryggingasjóð fyrir fólki sem nú stendur þar fyrir utan en (Forseti hringir.) getur að vissu marki orðið virkt í atvinnulífinu eins og fatlaðir og öryrkjar.