137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal með glöðu geði aðstoða ríkisstjórnina við niðurskurð í ríkisfjármálum. Ég get alveg fullyrt það hér að ríkisbáknið blés út í tíð Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka hér í ríkisstjórn, því miður, í því góðæri sem var þannig að það er ótækt að bera það á borð að ekki sé fitu að finna í ríkisfjármálum. (Gripið fram í: Hvar?) Það er ótækt að bera það á borð. Það er kjarkleysi vinstri manna að fara í niðurskurð í ríkisfjármálum. Það hefur alla tíð verið vegna þess að vinstri flokkarnir eru útgjaldaflokkar. Það kann að vera gott í góðæri. En það er aldrei (Gripið fram í.) gott að horfa eingöngu til útgjalda og ekki til niðurskurðar.

Ég spurði hv. þingmann að því áðan og ég vænti þess að hún svari — vegna þess að það sem hún nefndi er allt til útgjalda fyrir ríkissjóð og ekki til niðurskurðar — hvernig hún sjái fyrir sér niðurskurð í ríkisfjármálum ef til dæmis stýrivextir ekki lækka núna í júnímánuði eða 2. júlí. Hvernig sér hún ríkisstjórnina fyrir sér takast á við niðurskurð í ríkisfjármálum? (Forseti hringir.) Það er ljóst að hans gerist þörf.