137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja virðulegan forseta um að athuga hvort hæstv. fjármálaráðherra sé í kallfæri. Ég á við hann brýnt erindi, frú forseti.

((Forseti (ÁI): Það mun verða gert.)

Ég þakka forseta fyrir það.

Mig langar rétt í upphafinu aðeins að bregðast við þeim andsvörum sem hér hafa verið af hálfu hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar sem hún lét þá skoðun sína í ljós að það mætti frekar halda því fram að of langt hefði verið gengið í niðurskurði en hitt og það sé ekki þörf á því að endurskoða þau áform fyrr en í ljós kæmi hvort peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði vexti 2. júlí næstkomandi.

Enn fremur kom fram hjá hv. þingmanni að hún teldi að það væri misskilningur af hálfu peningastefnunefndar að hafa ekki lækkað vexti nú þegar. Þá ber að geta þess að það hefur margoft komið fram í rökstuðningi peningastefnunefndarinnar fyrir því vaxtastigi sem er hér á landi að aðhalds í ríkisfjármálum sé þörf og að beðið væri eftir því að sjá á spil ríkisstjórnarinnar hvað þau mál varðar.

Nú höfum við séð fyrsta þátt þeirra aðgerða sem fram undan eru og vegna þess almennt vil ég segja — þetta mál auðvitað kom fram í gær. Reyndar hefur fjárlaganefnd fengið nokkrar upplýsingar um þá vinnu sem verið hefur í gangi af hálfu stjórnarflokkanna. Engu að síður er heildarmyndin ekki komin og menn hafa ekki haft langan tíma í dag til þess að sökkva sér djúpt í þetta mál þannig að öll málsmeðferð og efnismeðferð í svona ræðu ber þess vitni að öll vinnan við málið er fram undan.

Það olli nokkrum áhyggjum að heyra viðbrögð forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörnssonar, þar sem hann strax í upphafi þegar þessar tillögur litu dagsins ljós efast um að þær dugi til þess að knýja fram þá nauðsynlegu stýrivaxtalækkun sem menn hafa svo mjög kallað eftir þótt nú sé þörf á að snúa sér að ýmsu öðru í ríkisfjármálum en því.

Ég veit ekki hvort maður eigi að hætta á að hæstv. fjármálaráðherra kalli mann svartsýnisrausara. Þess vegna er ágætt að geta vitnað í menn úti í bæ líka. Engu að síður er það nú svo, og ég held að hæstv. fjármálaráðherra kikni ekkert undan því, að það vantar töluvert enn þá upp á að við sjáum heildarmyndina og það veldur nokkrum áhyggjum þegar maður fjallar um þetta ákveðna mál. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því til dæmis vegna þess að hér er um verulegar skattahækkanir að ræða og mun minni niðurskurð en maður átti von á. Eitthvað höfðu ráðherrar í ríkisstjórninni gefið það í skyn undanfarna daga að niðurskurðurinn væri mjög erfiður, það væri erfitt að takast á við þetta á miðju ári. Þá segi ég á móti: Það er líka erfitt að hækka skatta á miðju ári, ég tala ekki um skatta sem eru miðaðir við ársgrundvöll og eru raunverulega að hækka um áramót. Við vitum ósköp vel að aðgerðir á miðju ári eru ekki heppilegar en því miður reyndust vera lausatök í ríkisfjármálum sem valda þessum viðbótarhalla sem menn eru að bregðast við.

Það er verið að boða hérna hækkaða skatta á launafólk í landinu. Hér hafa verið rökræður um það hvað séu háar tekjur og hvað séu millitekjur. Sannleikurinn er auðvitað sá að allt eru þetta viðbótarálögur á fólkið í landinu. Við vitum líka að þær skatttekjur sem gefa mest eru auðvitað þær sem fara beint á tekjuskatt. Þess vegna verður að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því: Á hverju eigum við von í haust þegar við förum í að ráðast á þann halla sem við vorum þegar búin að sjá framan í í ríkisfjármálum, þ.e. þennan upprunalega 153 milljarða kr. halla og þessa 56 milljarða sem við áætlum að þurfi að takast á við í fjárlagafrumvarpi haustsins? Þá þarf að velta fyrir sér niðurskurði og þá hefur ríkisstjórnin nú þegar boðað að lengra verði gengið í niðurskurði, þótt ég óttist það mjög að hún muni eitthvað hiksta á því miðað við það að mér finnst hún í raun og veru hafa heldur bakkað í áformum sínum um niðurskurð núna frekar en hitt. Mig langar til að vita hvaða hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra hefur um hækkun á tekjuskatti, vegna þess að ef um umtalsverða hækkun á tekjuskatti er að ræða getur skattur hjá fólki sem er með 700 þús. kr. — vegna þess, virðulegi forseti, að það hefur verið nefnt — orðið umtalsvert hár. Það er mjög mikilvægt þegar maður er að leggja mat á þessar skattahækkanir að maður fái að sjá hvað sé fram undan. Það eru örfáir mánuðir þangað til að fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 verður lagt fram.

Mig langar einnig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaða aðrar skattahækkanir séu í bígerð. Það var mjög viðkvæmt af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í kosningabaráttunni í vor þegar einhverjir nefndu að líklegt væri að hér yrði lagður á eignarskattur. Það hefur ekkert verið fjallað um eignarskatt í þessari umferð hér. Mig langar samt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji að slíkur skattur sé væntanlegur eða hvort einhver áform séu um slíkar skattahækkanir.

Annað langar mig til að vita. Í haust þarf að útfæra betur hátekjuskattinn en hér er gert. Mér sýnist þetta fyrst og fremst gert til þess að geta lagt hann á á þessu sex mánaða tímabili þannig að fróðlegt verður að vita hvers konar útfærslu þar sé um að ræða og hvort það verði strax í upphafi lagt upp með það að um tímabundna skattheimtu sé að ræða. Hvenær hyggst hæstv. fjármálaráðherra beita sér fyrir því eða í hvaða stöðu eiga ríkisfjármálin að vera komin til þess að geta aftur dregið úr þessum hátekjuskatti eða þessum viðbótarsköttum sem nú er verið að leggja til vegna þess efnahagsástands sem hér er? Ég ætla ekki að halda því fram að hér sé ekki um stórt verkefni að ræða. Það veit ég býsna vel og það hef ég margoft sagt bæði á vettvangi fjárlaganefndar og hér í þingsölum að það er allur vilji til þess af hálfu stjórnarandstöðunnar að koma fram með tillögur og það höfum við sjálfstæðismenn gert. Við höfum til dæmis komið fram með tillögur um það hvernig sé hægt að auka tekjur ríkissjóðs með skattlagningu á inngreiðslur í lífeyrissjóði. Mér finnst það ekki hafa fengið nógu góðan hljómgrunn hjá aðilum vinnumarkaðarins. Mér finnst að þarna þurfi ákveðna pólitíska leiðsögn. Ég held að það sé skylda okkar við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu að leita allra leiða til þess að auka tekjur ríkissjóðs til þess að geta komið í veg fyrir að óþarfaálögur verði lagðar á borgarana eða eins litlar álögur og nauðsynlegt er.

Í því sambandi langar mig líka til að nefna hérna tekjuhlið ríkissjóðs almennt, þ.e. möguleika ríkissjóðs til að afla frekari gjaldeyristekna. Það hefur margoft komið fram að það samkomulag sem í bígerð er vegna Icesave-málsins geti valdið verulegum búsifjum fyrir íslenskan þjóðarhag. Þetta er ekki það eina. Ekki þarf að fjölyrða um þau lán sem íslenskur ríkissjóður hefur þurft að taka í kjölfar þess óveðurs sem hér hefur dunið yfir. En það krefst þess líka að við eflum möguleika okkar til þess að afla gjaldeyristekna og það krefst þess að ríkisstjórnin hugsi til þess núna strax hvernig hún sjái fyrir sér að hægt sé að skapa hér skilyrði til að kalla erlenda fjárfestingu inn í landið vegna þess að sjö ár — ef þetta samkomulag verður samþykkt hér á þinginu — sjö ár eru býsna fljót að líða og þetta verkefni er það ærið að það er ekkert útséð um að við verðum komin algjörlega á beinu brautina eftir sjö ár. Alla vega þarf að huga að því strax og gæta að þeim verkefnum sem hugsanlega gætu orðið til þess að auka hér gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Í þjóðhagsspá, vorhefti fjármálaráðuneytisins, er fjallað um auðlindanýtingu, nokkuð sem ég hef verið mikill talsmaður árum saman, þ.e. að auðlindir íslensku þjóðarinnar séu nýttar til lands og sjávar. Ég hef áhyggjur af því að það sé nokkurt hökt í þeim málum. Ég hef áhyggjur af þeim áformum — ja, mér finnst það nú svona heldur vera áhugamál Samfylkingarinnar að ganga langt í því að umbylta sjávarútvegskerfinu. Mér finnst varhugavert að breyta viðkvæmum kerfum þegar við þurfum sem mest á þeim að halda. Ég ætla ekki að halda langt inn á þær brautir núna. En mig langar til að tala við hæstv. fjármálaráðherra aðeins um spár um hagvöxt komandi ára sem finna má í þjóðhagsspá þar sem gert er ráð fyrir því í grunnspá fjármálaráðuneytisins að framhald verði á áformum um álversuppbyggingu í Helguvík og breytingar í Straumsvík.

Nú hefur það verið nokkuð mismunandi hvað hæstv. ráðherrar telja að málið sé komið langt. Ég veit mætavel að óvissan um orkuöflun, þ.e. fjármögnun orkuöflunar er verulega mikil. Ég veit enn fremur að það blæs ekki beint byrlega fyrir aðstæður á mörkuðum. En vegna þess að fjármálaráðuneytið heldur þessum áformum enn þá inni í grunnspá, vegna þess að það er gert ráð fyrir því að árið 2011 verði mikill sláttur í þessum framkvæmdum þá langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki væri heppilegt þegar svona mikil óvissa er fyrir hendi að menn kæmu fram með áætlun um hvað gerðist ef mikil hliðrun yrði á þessum verkefnum, ef þau drægjust um eitt ár til dæmis, tvö ár, þrjú ár. Hvaða áhrif hefur það á forsendur þessarar spár og hvaða áhrif gæti það síðan í kjölfarið haft á forsendur fjárlagagerðar og þær áætlanir sem við höfum uppi hér til lengri tíma, hæstv. fjármálaráðherra? Það væri gagnlegt að fá skoðanir hans á því vegna þess að það er óskaplega mikil óvissa um þessar framkvæmdir og við vitum að það er allsendis óljóst hvort hægt sé að afla þeirrar orku sem þarf til að knýja þetta álver í Helguvík.

Century eða framkvæmdaraðilinn hefur einungis leyfi fyrir 250 þús. tonna álveri en hér er í grunnspá gert ráð fyrir fullri stærð á álveri. Það krefst 200 megavatta til viðbótar við þau megavött öll sem þegar hafa verið tryggð og mér finnst þetta skipta verulegu máli. Ef menn eru komnir á þá skoðun í ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það þurfi að nýta þessi verkefni til að knýja áfram hagvöxt þá finnst mér skipta máli að við reynum þá að minnsta kosti að gera okkur grein fyrir því hvaða afleiðingar öll hliðrun á svona verkefnum gæti haft og hvort það gæti orðið til þess að við þyrftum með einhverjum hætti að hugsa betur hvernig við eigum að undirbyggja tekjuöflun ríkissjóðs til lengri tíma.

Fyrst og fremst finnst mér skipta öllu máli, og því höfum við mörg hver haldið fram afar lengi, að það sem skiptir öllu máli sé að sem fyrst áttum við okkur á því til hvaða aðgerða verður gripið á næstu tveimur til þremur árum vegna þess að þetta hangir allt saman. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að við skulum ekki demba þessu yfir á komandi kynslóðir. Við skulum taka þetta sjálf á okkur. Við skulum gera það. Við skulum finna leiðir til þess að borga niður þessar skuldir sem fyrst en við skulum þá bara horfa hreint framan í það hvaða verk það verður. Það verður því miður þannig, þrátt fyrir fögur orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að það þarf að fara hér í stórfelldan niðurskurð í ríkisfjármálum. Ef menn vilja meina það — og ég get reyndar tekið undir það sjálf — að hér hafi ríkisreksturinn þanist út þá hlýtur með sama hætti að vera hægt að skera hann niður. Margar þær stofnanir sem ég veit að Vinstri hreyfingin – grænt framboð að minnsta kosti hefur verið frekar mótfallin að stofnaðar hafi verið, við skulum bara leggja þær niður. Við skulum bara leggja þær niður. Ég held að það verði aldrei hjá því komist hvort sem er.

Ég held að öllu máli skipti að ganga heiðarlega til verks og að við gerum okkur grein fyrir því að það þarf að grípa til allra aðgerða til að auka tekjur ríkissjóðs. Menn verða að horfa pínulítið út fyrir þann ramma um að það geti aldrei komið neitt annað til en hreinar skattahækkanir. Það þarf líka að vita hvort hægt sé að afla nýrra tekna og ég bið hæstv. fjármálaráðherra um það á komandi mánuðum að velta því fyrir sér hvort hægt sé að nýta eitthvað af þeim leiðum sem aðrir hafa bent á til þess að reyna að hjálpa vegna þess að enginn hér í þessum sal vill ekki að hlutirnir gangi vel á Íslandi og enginn óskar þess að ríkisstjórninni mistakist þetta verkefni. Það er enginn hér á þeirri skoðun.

Þess vegna vil ég við þetta tilefni biðja hæstv. ráðherra um að svara þessum spurningum nokkrum sem ég beindi til hans. Kannski voru þær nokkuð margar fyrir hann að svara í stuttu andsvari. En ég vonast til þess að það muni þá koma inn á vettvang fjárlaganefndar. Þótt þetta mál hafi reyndar ekki fengið beina vísun þangað þá er óumflýjanlegt að fjárlaganefnd taki þetta mál föstum tökum. Málið verður ábyggilega á vettvangi margra þingnefnda. Ég vonast til þess að við munum geta unnið þetta mál í sæmilegri samstöðu.