137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti mál sitt vel og af krafti. Ég veit ekki hvort það var þess vegna sem mér fannst jörðin skjálfa á meðan eða hvort þar voru geófísískir kraftar að verki.

Í fyrsta lagi í sambandi við þessar aðlögunaraðgerðir sem nú hafa verið birtar hér og varða með útfærðum hætti árin 2009 og 2010 þá eru þær samtals upp á 85,7 milljarða kr. eða nærri 10 milljörðum umfram áætlaða aðlögunarþörf. Það ættu að vera einhver skilaboð til Seðlabanka Íslands og annarra sem sýna að stjórnvöldum er full alvara. Ef það á að ráða mestu í ákvörðunum um stýrivexti eða aðra slíka þá hluti held ég að ekki verði sagt annað með réttu en að stjórnvöld sýni einbeittan vilja sinn hér til þess að takast á við þessa hluti.

Í öðru lagi um skatta þá hafa nú ekki verið teknar neinar endanlegar ákvarðanir um útfærslu til dæmis tekjuskatts og slíkra hluta á árinu 2010. Þó er í gangi vinna sem miðar að því að fyrir haustið liggi fyrir útfærðar tillögur í frumvarpsformi. Ég geri frekar ráð fyrir því en hitt að til dæmis í tekjuskattinum verði farið í miklu viðameiri uppstokkun á tekjuskattsfyrirkomulaginu en þessi tímabundna álagning hátekjuskatts ber með sér. En það verður þá í anda prógressífs tekjuskatts. Því get ég lofað hv. þingmanni. Varðandi eignarskatta þá stendur ekki til að taka upp almenna eignarskatta á lágar eignir eins og hér var við lýði áður. En ég útiloka ekki að einhvers konar útfærsla á stóreignaskatti og tekjugefandi eignum verði skoðuð.

Varðandi hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um að hefja skattlagningu á inngreiðslum í lífeyrissjóð þá ræddum við það hér fyrr í dag. Á því eru meðal annars þau tormerki að það mælist ekki vel fyrir og fær engar undirtektir hjá lífeyrissjóðunum sjálfum og aðilum vinnumarkaðarins, en lífeyrissjóðakerfið er jú að stærstum hluta uppbyggt í samkomulagi þessara aðila og er þannig til komið í grunninn auk þess sem langtímatekjuáhrif þess fyrir ríkissjóð og sveitarfélög að taka skattinn á þeim enda eru ekki jákvæð. Menn velja þá skammtímaávinning, sem vissulega er til staðar og er freistandi á margan hátt, á kostnað verulegs langtímaávinnings ríkis og sveitarfélaga að skattarnir séu teknir á útgreiðsluendanum.