137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þjóðhagsspána þá eru samkvæmt venju teknar inn í hana þær stórframkvæmdir sem þegar hafa verið ákveðnar og þar sem öll tilskilin leyfi liggja fyrir en aðrar ekki. Það sem væntanlega tefur helst fyrir að þær hefjist er óvissa um fjármögnun, sérstaklega tengd virkjunarþættinum og það liggur fyrir. Það er birt fráviksspá í þjóðhagsspánni þar sem er sýnt hvaða áhrif það hefur ef þessar framkvæmdir hefjast ekki en þess er jafnframt getið að aðrar framkvæmdir gætu þá fyllt í skörðin sem þurfa minni orku en eru engu að síður mannaflsfrekar og allmörg slík verkefni eru í undirbúningi.

Varðandi aðkomu lífeyrissjóðanna að ýmsum framkvæmdum þá hefur þar verið í samstarfi aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðanna og fleiri sem þátt hafa tekið í því starfi verið listaðar upp allmargar framkvæmdir. Þær eru á sviði samgönguframkvæmda. Það gætu verið einstakar stórar framkvæmdir eins og bygging Landspítalans og mögulega þátttaka í fjármögnun orkuverkefna. Þar er í raun allt undir og gert er ráð fyrir því að slíkar viðræður hefjist núna allra næstu daga. Það var ákveðið í ríkisstjórn í þessari viku að skipa viðræðunefnd til að hefja viðræður við lífeyrissjóðina með formlegum hætti.

Ég vil svo ekki að gleymist í þessari umræðu þeir möguleikar sem liggja í fjárfestingum og uppbyggingu í innlendu og starfandi atvinnulífi, alveg sérstaklega í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Þar eru samkeppnisskilyrði mjög hagstæð og verkefnastaða víða góð. Ferðaþjónustan nýtur góðs af hagstæðu gengi. Skipaiðnaðurinn er vel settur með verkefni þannig að annað eins hefur ekki sést í áraraðir. Innlendur iðnaður eykur núna markaðshlutdeild sína og fleira mætti nefna í þeim dúr sem er þrátt fyrir allt mjög jákvætt. Ég held að ef eðlileg fjármögnun verður til staða til viðbótarfjárfestinga til að auka umsvif og framleiðslu í mörgum slíkum greinum þá geti þar mjög góðir hlutir gerst. Ég veit það vel að mörg slík verkefni eru á teikniborðinu. En hindrunin er fyrst og fremst sú að ekki hefur verið í boði fjármagn, alla vega ekki á viðráðanlegum kjörum, og komum við þá enn (Forseti hringir.) og aftur að mikilvægi þess að vextir lækki.