137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum efnahagspakka ríkisstjórnarinnar og ég vona svo sannarlega að henni takist það sem hún ætlar, að laga stöðu ríkissjóðs. Það er verulega mikilvægt að það takist. Þessi pakki er reyndar dálítið seint á ferðinni og kannski allt of seint á ferðinni. Núverandi ríkisstjórn hefur frekar verið að auka útgjöld ríkissjóðs með ráðstöfunum sínum hingað til, bæði sú sem nú situr og sú sem áður var, bráðabirgðaríkisstjórnin eða minnihlutaríkisstjórnin, því að bakkað var frá ráðstöfunum sem gerðar höfðu verið í heilbrigðisráðuneytinu til sparnaðar og víðar og menn ákváðu að halda áfram byggingu tónlistarhúss sem kallar á gífurleg útgjöld sem ég sé ekki að hafi endilega verið það brýnasta. Þetta eru sem sagt merki um lausatök.

Eins og ég gat um er þetta frumvarp nokkuð seint á ferðinni og það litast að sjálfsögðu af þeim flokkum sem eru við völd. Þetta eru vinstri flokkar og þeir horfa að sjálfsögðu meira á tekjuhliðina en á gjaldahliðina. Gjaldahliðin er miklu erfiðari fyrir þessa flokka, þeir eiga erfitt með að skera niður í útgjöldum velferðarkerfisins og þeir eiga auðveldara með að ná í einhverja gróðapunga og hátekjufólk, eins og það er kallað.

Ég hefði lagt til að menn bökkuðu svo sem eins og 3–4 ár til baka með velferðarkerfið og alveg sérstaklega hvað varðar þá einstaklingshyggju sem tröllriðið hefur velferðarkerfinu undanfarið. Nú er minn flokkur í sjálfu sér einstaklingshyggjuflokkur og það er dálítið merkilegt að vinstri menn undanfarinna ára hafa verið mjög duglegir við að krefjast einstaklingshyggju, t.d. að fólk fái bætur án tillits til félagslegrar aðstöðu, að maki hátekjueinstaklings fái bætur óskertar án tekna makans, sem er einstaklingshyggja, og ýmislegt fleira. Það er hætt að taka tillit til þeirrar aðstöðu sem menn búa við og farið að líta á einstaklinginn fyrst og fremst. Sagt var að þær ráðstafanir sem gerðar voru á undanförnum árum — það er reyndar að einhverju leyti bakkað með það hérna — oftast nær að kröfu annarra en Sjálfstæðisflokksins, að þær kostuðu marga milljarða í hvert einasta skipti og var svo sem bent á að ekki væri gott að þenja út velferðarkerfið í góðærinu því að verri tímar gætu farið í hönd. Ég man eftir að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heitinn benti á þetta oft og tíðum og ég hugsa að hann hafi ekki einu sinni haft ímyndunarafl til að sjá fyrir sér það sem gerðist í hruninu sl. haust.

Öryrkjum hefur fjölgað gífurlega á síðustu árum. Fyrir nokkrum árum voru þeir 6.000, nú eru þeir 13.000. Það er held ég að sé einhverju leyti kerfinu að kenna en líka því að menn hafa lagt mjög litla stund á endurhæfingu. Það er mjög slæmt, frú forseti, líka fyrir öryrkjann sjálfan eða þann sem þarfnast endurhæfingar. Hann er tekinn úr sambandi við atvinnulífið og virkni hans er keyrð niður, hann verður enn meira háður kerfinu eins og það er uppbyggt. Þarna finnst mér að menn ættu að taka á honum stóra sínum. Ég viðurkenni að það verður ekki gert í einu vetfangi en þarna ættu menn að taka sig á og gera miklar breytingar til endurhæfingar, að endurhæfa og virkja öryrkja og sömuleiðis það fólk sem er atvinnulaust.

Ég var formaður í nefnd sem ætlaði að taka á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Það hefði þýtt verulega einföldun og mikinn sparnað. Því miður munaði kannski ekki nema einni viku að það tækist en það fór fyrir bí vegna stjórnarskipta og er kannski ekki alveg útséð um það hvernig það verður. En ég held að menn verði að horfa á slíkar leiðir, að einfalda kerfið og gera það skilvirkara, jafnframt miklu réttlátara og bærilegra fyrir það fólk sem borgar í dag jafnvel upp undir 250 þús. kr. í heilbrigðiskerfið, þ.e. það fólk sem þarf mikið á því að halda.

Menn hafa talað dálítið um fæðingarorlofið og það er verið að skerða hámarkið. Ég er mjög hugsi yfir því vegna þess að það var upphaflega sett á til að jafna aðstöðu fólks, karla og kvenna. Það var í rauninni jafnréttismál til að gera karlmenn jafndýra og konur fyrir atvinnulífið. Það merki sem verið er að gefa með því að lækka hámarkið er í rauninni að menn ætla að hafa jafnrétti alls staðar nema á háum launum. Það finnst mér ekki vera neitt sérstaklega skynsamlegt. Ég vil hafa jafnrétti alls staðar, líka í háum launum. Ég bendi á að hátekjumaðurinn borgar mjög hátt tryggingagjald því að það er eiginlega sama hver greiðir, fyrirtækið, atvinnurekandinn eða launþeginn, tryggingagjaldið er skattur á laun og mætti alveg eins hækka öll laun í landinu um tryggingagjaldið og láta launþegann greiða það sjálfan. Það breytti nákvæmlega engu.

Í fæðingarorlofinu eru þrír þættir sem hafa áhrif en menn hafa talað eingöngu um tvo, þ.e. um lengd tímabilsins og hámarkið. Menn taka ákvörðun um að lækka hámarkið. Ég er sammála því að það yrði mjög slæmt að stytta það. Ég mundi ekki vilja sjá það. Ég tel að það sé gott kerfi sem við höfum en það er einn þáttur í viðbót sem menn geta skoðað og það er þau 80% sem miðað er við. Sú tala var ákveðin út í loftið og ég man eftir þeirri umræðu. Þá sögðu menn að það þyrfti að vera nægilega hátt til að lokka karlmenn í fæðingarorlof. Nú hefur það tekist með afbrigðum vel að lokka karlmenn til að taka frí með börnunum sínum. Þá er hægt að koma hlutfallinu eitthvað niður og sjá hvort það lokki ekki jafnmikið að hafa 75%, alveg sérstaklega þegar launin eru að lækka og fæðingarorlofið miðar við síðustu tvö ár þannig að það hækkar hlutfallslega. Ég mundi vilja að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar, sem verður væntanlega fjárlaganefnd að mér skilst og sem vísar þá væntanlega tekjuhliðinni til skattanefndar, skoði það að lækka prósentuna niður í 75% en það gefur miklu meira en þetta lækkaða hámark. Það mundi gefa 6% af 6–7 milljörðum þannig að þar erum við komin með hálfan milljarð.

Þá kem ég að tekjuhliðinni sem eru skattarnir og þar finnst mér ríkisstjórninni vera mislagðar hendur, enda kannski eðlilegt þar sem hún er vinstri sinnuð og hugsar um að ná í skatta og tekjur í staðinn fyrir að taka á útgjöldunum, t.d. með hækkun á tryggingagjaldinu. Tryggingagjaldið er ekkert annað en skattur á laun. Við erum með þrjá skatta á laun. Það er tryggingagjaldið sem atvinnurekandinn greiðir, það skiptir í rauninni ekki máli og það mætti hækka launin í landinu um það og það breytti engu. Auðvitað á launþeginn að greiða tryggingagjaldið, þá sjá menn hvað þeir greiða fyrir launin sín. Það er flatur skattur, alveg upp úr og niður úr, ekkert frítekjumark og ekki neitt. Síðan er útsvar sem líka flatur skattur, upp úr og niður úr, og hann borga allir frá fyrstu krónu nema ríkið greiðir fyrir þá sem eru undir tryggingamarkinu. Ríkið greiðir útsvarið til sveitarfélaganna og gerir það með tekjuskatti sem er þá í reynd neikvæður upp að frítekjumarkinu. Síðan verður hann núll einhvers staðar við 150 þús. kr. eða eitthvað um það bil. Þá fara menn raunverulega að borga tekjuskatt. Það eru því þrenns konar skattar á tekjur. Verið er að hækka einn af þeim allverulega, það gerir launakostnað fyrirtækjanna hærri, það er bara þannig. Þessi skattur kemur á fyrirtækin. Það eru um 7 þúsund kr. á meðallaun á mánuði en þau eru eitthvað um 400.000 kr. Þetta er 1,5% þannig að mér telst til að það séu um 7.000 kr. á hvern einasta launþega að meðaltali og það er umtalsverður biti, enda gefur þetta mestu tekjurnar. Það gerir launþegann dýrari og mörg fyrirtæki sem eru nú í miklum vandræðum með að greiða launþegum sínum laun, munar um þetta. Það munar kannski litlu en það munar ef til vill því að þau gefast upp og segja fólki upp þannig að þessi skattur eykur ekki atvinnu heldur dregur úr henni.

Margoft hefur verið rætt um fjármagnstekjuskattinn, þar eru sett inn frítekjumörk sem flækir kerfið óskaplega en tekin er ákvörðun hérna að hækka hann um 15%. Á sama tíma og menn upplifa það að fólk sem var með mínus tekjur í 20% verðbólgu — það var kannski með 20% vexti sem þótti mjög gott — borgaði 2% í skatt af þeim tekjum sem engar voru. Fjármagnstekjuskatturinn var mjög óréttlátur og það er einmitt út af þessum verðbótaþætti sem prósentan var ákveðin 10%. Það var ekki út í bláinn. Hún var valin 10% vegna áhættu af hlutabréfum. Menn töpuðu óhemjupeningum í hlutabréfum og eru búnir að borga skatt af þeim í sumum tilfellum til ríkisins og sá skattur er ekki endurgreiddur. Aðrir borga skatt af verðbótaþættinum í mikilli verðbólgu sem er ekki tekjur, það er slæmt líka vegna þess að það refsar fólki fyrir sparnað. Það er til fólk sem leggur á sig að spara en því miður er allt of lítið af því á Íslandi og það er kannski ástæðan fyrir hruninu. Það voru svo fáir sem spöruðu og svo óskaplega margir sem eyddu og þannig er það búið að vera mjög lengi á Íslandi. Skattur á fjármagnstekjur gerir það að verkum að fólki er refsað fyrir sparnað. Reyndar mun þetta 250 þús. kr. frítekjumark gera það að verkum að þeir sem eru með sparnað upp að 2 millj. eða 2,5 millj. kr. sleppa kannski ef þeir eru með 10% vexti. Það er margt sem þarf að huga að.

Svo eru það skattarnir sem greiddir eru úr landi. Það var nefnt í vetur og færð fyrir því rök að það væri ekki beint gáfulegt vegna þess að íslensk fyrirtæki fá ekki lán í útlöndum og ef þau fá lán í útlöndum er það yfirleitt þannig að þau þurfa að sæta markaðsvöxtum eftir skatt. Það skiptir engu máli fyrir þá, t.d. í Japan, sem lána íslenskum fyrirtækjum eða hvar sem er. Fyrir þau lönd sem búið er að gera tvísköttunarsamninga við skiptir það heldur ekki máli en það skiptir máli fyrir lönd sem ekki er búið að gera tvísköttunarsamninga við og það eru t.d. lönd eins og Arabalöndin og að því er mér skilst Taívan og fleiri sem sum hafa gífurlega mikla fjármuni. Það þýðir bara að vextirnir verða hærri sem því nemur sem lántakendurnir þurfa að greiða.

Það er ýmislegt jákvætt í þjóðfélaginu í dag, t.d. ferðaiðnaðurinn, sjávarútvegurinn og áliðnaðurinn. Það gengur allt glimrandi vel vegna þess að gengið hjálpar þessum fyrirtækjum almennt og yfirleitt hjálpar mjög lágt gengi krónunnar þeim mikið. Það er mikið fjör í ferðamannaiðnaðinum, það veit ég. Vöruskiptajöfnuðurinn er jákvæður. Þjóðin er búin að breyta hegðun sinni varðandi neyslu og farin að spara og ég hugsa að við munum sjá tölur um sparnað sem við Íslendingar höfum aldrei séð áður og það er mjög jákvætt. Sparnaðurinn er gífurlega mikill. Það er gífurlegur innlendur sparnaður í bönkunum, upp á hundruð milljarða. Reyndar er erfitt að komast að því hvað það er mikið. Þessir peningar eru óvirkir og það sem ég held að sé mest um vert núna, frú forseti, er að koma bönkunum í gang, láta þessa peninga fara að vinna úti í atvinnulífinu. Ég vil benda á að stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað mjög mikið vegna þess að þeir eru hættir að virka. Það er enginn sem notar þá. Það eru spariinnlánin í Seðlabankanum sem eru um 9,5% sem eru hinir raunverulegu stýrivextir og þau virka sem sagt.

En ég vildi gjarnan að við frekari vinnslu á svona málum að menn skoðuðu það að taka upp skyldusparnað. Ég vil miklu frekar sjá skyldusparnað en sambærilega skattlagningu vegna þess að maður sem skyldusparar flytur ekki til Noregs en maður sem er skattlagður undir drep flytur til Noregs af því að hann á ekki peninginn. Ríkið er búið að hirða hann af honum. En ef hann á von að fá peninginn einhvern tíma seinna, ef hann er skyldugur til að kaupa í bönkunum eða slíkt, flytur hann ekki til Noregs.