137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það fer að líða að lokum þessarar umræðu og margir þættir hafa fengið nokkra umfjöllun. Það er tilfinning mín að málið eigi eftir að fá talsvert mikla umræðu bæði í efnahags- og skattanefnd og eins í öðrum nefndum sem að þessu koma. Mér finnst auðsætt að fjárlaganefnd þarf að fjalla um þetta mál og sama á augljóslega við um félags- og tryggingamálanefnd og allsherjarnefnd og þarf síðan að athuga hvort það eru fleiri nefndir sem geta tekið einstaka þætti til skoðunar en a.m.k. finnst mér ljóst að þessar nefndir þurfa að fjalla um málið.

Í þessari umræðu og í frumvarpinu sjálfu hefur komið fram að hér er um að ræða nauðsynlegar aðgerðir vegna stöðu ríkissjóðs á þessu ári. Einnig er lögð á það mikil áhersla af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að þessu máli verði lokið fyrir 1. júlí til að hægt sé að láta ákveðna liði taka gildi þá. Ég verð að játa að auðvitað hefði verið hentugra að málið hefði legið fyrr fyrir þannig að hægt væri að gefa því betri tíma í þinginu, að menn væru ekki að vinna undir þeirri tímapressu sem sett er á með því að koma með málið inn í þingið 18. júní og leggja áherslu á að það verði klárað þannig að unnt sé að hrinda ákveðnum þáttum málsins í framkvæmd 1. júlí. Þinginu er gefinn mjög skammur tími til að fjalla um hluti sem í eðli sínu geta verið talsvert flóknir og kalla á að þingnefndir fái til sín fjölda hagsmunaaðila og sérfræðinga til að fjalla um einstaka þætti og hugsanlegar afleiðingar þess. Það verður auðvitað að koma í ljós hvernig það gengur. Vissulega höfum við séð dæmi um að þingmál hafa verið afgreidd á skemmri tíma en hins vegar er staðreynd, eins og ég vék að í fyrri ræðu minni, að það hefur lengi legið fyrir að grípa þyrfti til aðgerða í þessa veru með einhverjum hætti. Það er ekki ný staða eða eitthvað sem á að koma á óvart á vor- eða sumarmánuðum að það þurfi að gera eitthvað.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra fyrst og fremst út í eitt atriði, það varðar ekki beinlínis efnisatriði frumvarpsins heldur annað sem vikið er að í greinargerð. Það varðar almennu aðhaldsaðgerðirnar sem getið er um í töflu á bls. 11. Eitthvað spurði ég hæstv. forsætisráðherra út í þetta áðan og eins og ég gat um kom frumvarpið í þingið í gærkvöldi og maður er að reyna að átta sig á einstökum þáttum þess. Ég vil biðja hæstv. fjármálaráðherra að hjálpa mér aðeins að átta mig á því. Þarna er talað um aðhaldsaðgerðir sem eigi að skila 1.800 millj. kr. sparnaði á þessu ári. Nú hefur verið vísað til þess með beinum og óbeinum hætti í þessum umræðum að hér sé ekki bara um markmið að ræða. Það sé búið að ákveða aðgerðir sem fylla eigi upp í þessa tölu, ef svo má segja. Það liggi fyrir listi um sparnaðaraðgerðir sundurliðaðar eftir ráðuneytum og stofnunum. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort sá listi sem verið er að tala um í því sambandi sé vinnuplagg eða hvort það sé tillaga eða ákvörðun, á hvaða stigi það mál er. Þá vil ég líka spyrja að hvaða leyti það plagg hefur verið kynnt og hvort unnt sé fyrir þingmenn að nálgast það einhvers staðar vegna þess að það er alveg ljóst að það varðar miklu í öllum umræðum okkar um fjárhag ríkissjóðs að átta okkur á því hver staða þessara mála á vegum ríkisstjórnarinnar er. Hvort ríkisstjórnin hefur aðeins sett sér markmið og gefið fyrirmæli um einhvern sparnað hér og þar eða hvort búið er að taka ákvörðun um tilteknar ráðstafanir. Ég væri afar þakklátur hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst um á hvaða stigi þetta mál er og hvort þessar upplýsingar sem menn hafa verið að vísa í í umræðum með beinum og óbeinum hætti, séu aðgengilegar.