137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá umræðu sem staðið hefur í dag og hefur verið mjög góð að mínu mati. Hér hafa menn lýst sjónarmiðum sínum og auðvitað hafa verið skiptar skoðanir um ýmislegt, aðferðir og kannski að einhverju leyti markmið og hversu bratt eigi að fara í hlutina. Ég hef þó engan mann heyrt halda neinu öðru fram hér í dag en því að það sé óumflýjanlegt og brýnt að takast á við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í sambandi við afkomu ríkissjóðs og nauðsyn þess að draga þar úr hallanum og ná tökum á hallarekstrinum til framtíðar litið þannig að við getum innan viðráðanlegra tímamarka stefnt að því að jafnvægi komist á í ríkisbúskapnum á nýjan leik. Í það heila tekið tel ég að sá andi hafi verið hér svífandi yfir vötnum og þingmenn almennt lagt mjög gott til umræðunnar.

Ég vona að mér hafi að mestu leyti tekist í andsvörum að svara þeim spurningum sem hér hafa verið fram bornar og að það sé fullnægjandi við þessa umræðu þannig að ég vil bara nota tækifærið og þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni og verið með í dag.