137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það þarf að styrkja Atvinnuleysistryggingasjóð og verið er að mæta þörfum hans.

Á bls. 11 í frumvarpinu er talað um að verið sé að bæta afkomuna um 22 milljarða en það virðist vera, og því er ósvarað enn þá í þessari umræðu, að það gleymist að gera ráð fyrir því að þeir 7 milljarðar sem koma í Atvinnuleysistryggingasjóð fara strax úr honum aftur. Það er vegna þess að þörfin er mikil eins og búast má við.

Ég vil engu að síður þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir viðleitni hans til þess að svara spurningum okkar þingmanna málefnalega og þetta hefur verið mjög góð umræða þó að við hefðum kannski viljað sjá meiri aðgerðir.

Ég geri mér miklar væntingar um að peningastefnunefnd líti á þessar aðgerðir sem tilefni til stýrivaxtalækkunar. Það mundi kannski koma til móts við þau heimili og þau fyrirtæki sem þurfa annars vegar að horfa upp á hækkun á skatti og hins vegar á hækkun á vísitölu vegna þess að margar af þessum aðgerðum fela í sér hækkun á vísitölu og heimilin þurfa að þola hækkun um einhverja 12 milljarða samkvæmt þessu frumvarpi.