137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

stuðningur við Icesave-samninginn.

[15:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það hefur komið skýrt fram í þjóðmálaumræðu og í sölum Alþingis sérstaklega að mikill vafi er uppi um það hvort meiri hluti sé í þinginu fyrir þeim gjörningi sem átti sér stað þegar samningamenn Íslands settu stafina sína undir samkomulagið um Icesave-reikningana við bresk og hollensk stjórnvöld. Bresk stjórnvöld hafa til að mynda nú þegar brugðist við þessu samkomulagi eða þessum drögum að samkomulagi með því að aflétta frystingu á íslenskum eignum og er augljóst að þau stjórnvöld gera ráð fyrir að þetta samkomulag hafi verið fullnustað á þingi. Það er því ástæða til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Úr því að komið hefur fram jafnskýrt að það er vafi á því hvort meiri hluti sé fyrir þessum gjörningi í þingsal, hefur breskum stjórnvöldum verið gerð grein fyrir því að þessi vafi sé uppi og að það sé jafnvel ólíklegt að samningurinn hljóti nægilega mörg atkvæði í þingsalnum til að hann verði fullnustaður? Og sé svo, þ.e. að breskum stjórnvöldum hafi verið gerð grein fyrir þessum vafa, hver voru þá viðbrögð þeirra stjórnvalda?