137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Heilsufélag Reykjaness.

[15:28]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Undanfarin ár hefur hópur frumkvöðla unnið að undirbúningi og stofnun heilbrigðisfyrirtækis á Suðurnesjum. Að félaginu standa aðilar sem vilja byggja upp heilsutengda ferðaþjónustu, heilsutengda atvinnustarfsemi, þar af eflingu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og rannsókna og þjálfunar á heilbrigðissviði.

Áætlað er að fyrirtækið muni skapa um 300 störf á næstu árum. Viðskiptahugmynd fyrirtækisins byggir á því að nýta fullkomnar en vannýttar skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og nýta húsnæði á gamla vallarsvæðinu til framhaldsmeðferða og endurhæfingar. Búið er að ná samningum við erlenda skjólstæðinga sem vilja komast í meðferðir hér á landi en kaupendur þjónustunnar eru erlendir, opinberir aðilar. Allt er til staðar til að hefja rekstur, aðstaðan og viðskiptavinirnir.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hér er ekki verið að blanda saman viðskiptahugmynd þessa fyrirtækis við einkavæðingu heilbrigðisþjónustu, þ.e. hér er einungis miðað við að nýta betur þá fjárfestingu sem ríkið hefur nú þegar lagt út í, þ.e. menntun starfsfólks og uppbyggingu hágæðaskurðstofa. Athuga ber að ríkisvaldinu yrði greitt fyrir þá þjónustu sem það mundi veita.

Valkostur frumkvöðlafyrirtækisins er að byggja sínar eigin skurðstofur og legudeild en slíkt yrði ákaflega óhagkvæmt fyrir alla aðila, óþarfur startkostnaður þegar fyrir liggur að núverandi aðstaða er ekki vel nýtt. Forsvarsmenn þessa fyrirtækis hafa ítrekað reynt að ná eyrum ráðuneytisins með þetta erindi og mig langar því að spyrja ráðherrann um hug hans til þessarar viðskiptahugmyndar og hvort ráðherra geti ekki hugsað sér að ná samstarfi með þeim hætti sem hér er stungið upp á.

Ég spyr enn fremur: Felst ekki í því umtalsverð verðmætaaukning að nýta betur þá fjárfestingu sem lagt hefur verið út í með því að leigja hana áfram? Eigum við ekki að horfa til óhefðbundinna lausna á núverandi tímum og þá sérstaklega þegar við horfum til þeirrar innspýtingar sem þetta viðskiptamódel hefur í för með sér fyrir nærsamfélagið?