137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Heilsufélag Reykjaness.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að við eigum ekki að loka dyrum á neinar hugmyndir en vil þó nefna að málið er ekki alveg eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn. Þegar fólk gengst undir skurðaðgerð þarf að vera til staðar sjúkrahús sem getur tekið við þeim tilfellum þar sem illa tekst til og ég hef alltaf sagt að menn geti reist öll þau sjúkrahús sem þeir vilja, einkaaðilar geta gert það, það er ekkert sem kemur í veg fyrir slíkt, en þegar skattborgarinn á að borga fyrir þjónustuna eða gangast í einhvers konar ábyrgð þarf að skoða málin betur.

Þessi mál eru öll í athugun og við skoðum þetta allt með opnum huga. Að sjálfsögðu er grundvallaratriði að heilbrigðisþjónustan sé skipulögð (Forseti hringir.) út frá langtímahagsmunum samfélagsins en ekki hugsanlegum stundarhagsmunum og viðskiptasjónarmiðum.