137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

staða lífeyrissjóðanna.

[15:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Menn spyrja hvernig lífeyrissjóðirnir á Íslandi virki. Þeir virka samkvæmt þeim lögum sem Alþingi setti þeim frá 1. janúar árið 1997. Á þeim árum sem liðin eru höfum við búið við ríkisvald sem hefur ekki viljað taka fjármagn frá lífeyrissjóðunum til ráðstöfunar. Við höfum búið við ríkisvald sem hefur lagt meiri áherslu á einkavæðingu og að styrkja einkafjármagnið.

Hafa lífeyrissjóðirnir fjárfest á gráu svæði? Þeir hafa fjárfest í íslensku atvinnulífi. Þeir hafa reynt að dreifa áhættunni með því að fara með hluta fjármagnsins úr landi, allt samkvæmt lögum og reglum sem settar hafa verið. Hefur þetta verið grátt svæði? Já, íslenskt atvinnulíf og sérstaklega fjármálalíf hefur verið á mjög gráu svæði. En ég vara við því að reyna að gera lífeyrissjóðina og alla þá sem hafa tengst þeim eða komið að þeim málum tortryggilega. Ég get fullvissað hv. þingmenn um það að engar stofnanir, engar fjármálastofnanir í landinu lúta eins miklu lýðræðislegu aðhaldi og þessar.

Ég þekki þetta mjög vel frá hálfu BSRB þar sem málefni lífeyrissjóðanna hafa verið til umfjöllunar á öllum aðalfundum, fjölmörgum ráðstefnum sem efnt hefur verið til, enda hafa samtök launafólks lagt mikið upp úr því að verja og bæta kjör lífeyrisþega. Og núna þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal reynir eina ferðina enn að egna til sundrungar á milli opinberra starfsmanna annars vegar og annars launafólks hins vegar, leyfi ég mér að vísa slíku á bug og ég bið aðra þingmenn (Forseti hringir.) að taka ekki undir þennan ófrægingarsöng gagnvart íslensku verkalýðshreyfingunni.