137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[16:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi við það markmið hv. formanns fjárlaganefndar að þingmenn, nefndarmenn í fjárlaganefnd þá einna helst fái aðgang að upplýsingakerfi ríkisins í vinnu við gerð fjárlaga þannig að vinnan í þinginu megi verða upplýstari og faglegri. Maður hefur heyrt það úr mörgum áttum að það skortir dálítið á þetta, að þingmenn hafi viðeigandi upplýsingar í vinnu við gerð fjárlaga.

Mig langar að spyrja hann líka í tengslum við hans ræðu. Hann talaði dálítið um að það þyrfti að auka ábyrgð stjórnenda og þá væntanlega líka ábyrgð ráðherra gagnvart því þegar farið er fram úr fjárlagaheimildum. Það hefur verið fullyrt að við séum í hópi ákaflega fárra vestrænna ríkja sem láti það viðgangast að stofnað sé til útgjalda sem ekki eru heimildir fyrir á vegum ríkisins. Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvernig hann sjái fyrir sér að stjórnendur ríkisfyrirtækja og jafnvel ráðherrar líka axli ábyrgð í þessum efnum. Eiga þeir að segja af sér eða hvernig öðruvísi sér hann fyrir sér þessa stjórnendaábyrgð.

Svo benti hv. formaður fjárlaganefndar á það réttilega að gjaldahækkun ríkisins, ráðuneytanna síðustu tveggja ára hefur verið mun meiri en áranna þar á undan. Mig langar að heyra hvaða orsakir hv. formaður fjárlaganefndar telur að séu fyrir þessu og hvort þær orsakir séu réttlætanlegar.