137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að fram komi að frumvarpið er efnislega og að uppistöðu til samið af nefnd ráðgjafa sem starfað hafa í þessum bankamálum, þar á meðal sá nokkuð frægi maður orðinn á Íslandi, Mats Josefsson, og reyndar hefur verið sótt ráðgjöf til fleiri erlendra aðila í sambandi við þetta mál. Hér hefur verið tekið mið af því hvernig þessir hlutir voru gerðir í Noregi á sínum tíma en þar var farin sú leið að búa til einingu sem hélt um eignarhaldið á ákveðnu umbreytingaskeiði en síðan gekk það eignarhald aftur til baka inn í ráðuneyti það sem eftir stóð af eign ríkisins.

Það er einnig rétt að menn lesi og hafi í huga þann megintilgang þessarar einingar að koma fram og tryggja framkvæmd eigendastefnu ríkisins gagnvart bönkunum með samningum við þá, m.a. um endanlega og fulla fjármögnun þeirra. Fjármálaráðherra fer með eignarhaldið, það er staðreynd. Hann ber á því pólitíska ábyrgð gagnvart þingi og þjóð og hluti þess er þá sá að skipa stjórn þessarar opinberu stofnunar sem þarna heyrir undir en sú skipan er á faglegum forsendum, á grundvelli vel skilgreindra og mjög ríkra faglegra hæfniskrafna. Það held ég að sé besta nálgunin í þessu fremur en eitthvert kvótakerfi eða einhver önnur nálgun sem oft hefur verið viðhöfð. Það eru margar leiðir þekktar í þessu gegnum tíðina, fyrir 20 árum hefði mönnum sjálfsagt ekki dottið annað í hug en að kjósa svona stjórn hlutfallskosningu á Alþingi og hverjir hefðu þá setið í henni? Sennilega þingmenn eins og ástandið var þá. Hér er engu slíku til að dreifa. Hér verður lagður faglegur grunnur að því að í þetta veljist menn sem fyrst og fremst á grundvelli hæfni sinnar og ferilskrár teljist óumdeildir til að fara með þetta hlutverk.