137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sé ekki búin að vera með svima síðan í haust (ÓN: Mig sundlaði.) eða sundlaði já, því að þetta ástand varð til í haust og ég tók það í arf. Það er ekki eins og ég hafi framkallað það eða búið það til. Mér finnst dálítið skemmtilegt að lesa umfjöllun af því tagi eins og að það hafi allt saman orðið til núna á vordögum þetta ástand sem við erum að glíma við.

Ég ætla að segja það í fullri einlægni við hv. þingmenn að dvöl mín og vera mín í fjármálaráðuneytinu í vetur hefur algerlega sannfært mig um það að við þurfum að gera skipulagsbreytingu af þessu tagi. Það er ekki hollt fyrir hvorugan aðilann, bankana eða tilvonandi eign ríkisins í sparisjóðum né ráðuneytið og ráðherrann að hafa þetta eins og þetta er. Þetta er allt of flókið viðfangsefni og allt of óljós skil þarna á milli til að hafa þetta í því formi sem ég tók við því af Sjálfstæðisflokknum í vetur. Ég er þess vegna orðinn algerlega sannfærður um að við eigum að búa til eitthvert fyrirkomulag af þessu tagi, sjálfstæða einingu, ábyrga einingu sem fer með þetta eignarhald á grundvelli skýrrar eigendastefnu ríkisins sem er opinber og liggur fyrir.

Svarið við fyrstu spurningunni er nei. Það mun koma fram vonandi á allra næstu dögum eigendastefnan, sem þetta verður auðvitað hluti af, og þar með verða meginlínurnar lagðar en það mun líka taka til almennt eigna ríkisins í fyrirtækjum. Slíka eigendastefnu höfum við Íslendingar aldrei mótað. Hún hefur aldrei legið fyrir og það er miklu meira en tímabært að það sé gert.

Að sjálfsögðu geta menn velt fyrir sér að standa að skipun stjórnar Bankasýslunnar með öðrum hætti, en hér er valin hin faglega leið, ráðherrann fer með eignarhaldið eins og áður sagði. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hann geti í vissum undantekningartilvikum beint tilmælum til stjórnar Bankasýslunnar þótt sjálfstæð sé en þá verða þær orðsendingar opinberar og þess vegna held ég að þetta sé eðlilegur frágangur (Forseti hringir.) málsins.

Í þriðja lagi er svarið já, Bankasýslan á einmitt að gera tillögur um meðferð eignarhluta og/eða sölu í framtíðinni.