137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Menn hafa verið að vitna til mikilhæfra rithöfunda. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson vitnaði til Franz Kafka og þá örugglega til þess flækjustigs sem oft er í sögum hans. Hæstv. fjármálaráðherra vitnaði til Milans Kundera og er þá væntanlega að vitna til Óbærilegs léttleika tilverunnar. Ég ætla að leyfa mér að nefna höfund, og þið verðið sennilega að fara á Wikipediu til að finna út hvað hann hefur skrifað, en lýsing hæstv. fjármálaráðherra á því hvernig frumvarpið var skrifað minnir mig á aðalsöguhetjuna þar. Þessi höfundur heitir Carlo Collodi.

Og þá erum við allir búnir að slá um okkur og getum snúið okkur að efninu en við ræðum hér Bankasýslu ríkisins sem á að fara með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ef við förum yfir meginmarkmið og tilgang þá stendur í 1. gr. að Bankasýslunni sé ætlað að leggja bönkunum til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimilda í fjárlögum. Áherslan er á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og Bankasýslan á að stuðla að virkri og eðlilegri starfsemi á þeim markaði. Bankasýslan á að tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings. Þá er Bankasýslunni heimilt að setja á fót og fara með eignarhluti ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum hennar.

Í meginatriðum er ágætt að sett skuli vera á fót stofnun sem heldur á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ef rétt er á málum haldið tryggir félagið armslengdarsjónarmið, þ.e. að færa afskipti af fjármálakerfinu frá stjórnmálamönnum. Jafnframt tryggir stofnunin fagleg vinnubrögð ef markmið nást, gagnsæi og annað slíkt. Allt saman verkar þetta til að auka trúverðugleika eða réttara sagt endurvinna trúverðugleika á fjármálakerfinu. En mér er spurn: Af hverju ekki að hafa þetta fyrirtæki? Þetta hljómar eins og verið sé að stofnanagera eignarhaldið og í því sambandi er þetta nafn, Bankaumsýsla, afleitt nafn. En það er kannski ágætt að láta það heita Bankaumsýsla, það verður þá væntanlega skorið fljótt af með nýjum valdhöfum.

Í 2. gr. og í þeirri 9. er gefið til kynna að líftími stofnunarinnar sé 5 ár og má þá skilja af þessu sólarlagsákvæði að það tryggi að meginhugsunin sé að fjármálafyrirtækin verði seld aftur á markaði. Þá segir líka að ákveði fjármálaráðherra í undantekningartilfellum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál geti stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið. Skal þeirri þingnefnd Alþingis sem fer með bankamál gerð grein fyrir tilmælum ráðherra og afstöðu stjórnanna til þeirra eins fljótt og auðið er. Þetta ákvæði held ég að sé ákaflega gott, þ.e. að gera þurfi grein fyrir tilmælum sem fjármálaráðherra beinir til stofnunarinnar á gagnsæjan hátt, og það eykur enn og aftur trúverðugleikann. Síðan segir í 2. gr. að fjármálaráðherra skuli skipa stjórn. Það tel ég afar slæmt, það skemmir í raun fyrir megintilgangi stofnunarinnar sem er að tryggja armslengdarsjónarmiðið. Þetta er farvegur fyrir spillingu og ómarkviss vinnubrögð. Nær væri t.d. án þess að ég sé beinlínis að leggja það til — uppi eru aðrar hugmyndir um að Alþingi væri falið að skipa einhvers konar valnefnd sem síðan réði stjórn á algerlega faglegum forsendum. Einnig væri hægt að ímynda sér að stofnanir á vinnumarkaði skipi þessa valnefnd en alla vega að þetta vald sé fært frá fjármálaráðherra. Þar er ég ekki að meina hæstv. fjármálaráðherra heldur fjármálaráðherra yfirleitt.

Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja trúverðugleika og að það sé hafið yfir allan vafa að stjórnmálin komi hvergi nærri við ákvarðanatöku stjórna. Þetta er enn mikilvægara nú en nokkru sinni áður vegna þess að fjármálamarkaðurinn nýtur nær einskis trúverðugleika og stjórnmálamenn eiga ekki trúnað þjóðarinnar getum við sagt. (Gripið fram í: Af hverju skyldi það nú vera?) — Það er fyrir manneskjur eins og þig. Fjármálaráðherra skipar formann og varaformann. Það er afar slæmt að fjármálaráðherra eigi að vasast beint í því hvernig stjórnarmenn skipa með sér verkum og er fremur óhefðbundið. Þetta býður enn og aftur heim hættu á pólitískri spillingu.

Í 3. gr. skýtur upp þeirri hugsun sem verið er að reyna að koma inn núna, þ.e. að hæst launaði starfsmaður ríkisins eigi að vera forsætisráðherra. Hér segir að kjararáð skuli ákveða starfskjör forstjóra og stjórn stofnunar semur starfslýsingu hennar. Hvað varðar starfslýsinguna þá er það í góðu lagi og eðlilegt að stjórnin semji starfslýsingu en að kjararáð ákveði starfskjör er slæmt. Það á ekki að takmarka laun á þennan hátt vegna þess að þannig náum við ekki að laða að hæfustu einstaklingana til að stjórna þessari stofnun.

Í 4. gr. er j-liður. Þar er sagt að eitt af hlutverkum stofnunarinnar sé að undirbúa og vinna tillögur um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Til að hnykkja enn frekar á þessu ætti að setja tímamörk sem gætu innihaldið einhvers konar fyrirvara um markaðsástand. Þannig er hægt að móta væntingar markaðsaðila og hugsanlega fá hærra verð fyrir hlutina auk þess sem slíkt gagnsæi mundi verka vel á hlutabréfamarkað.

Í 7. gr. er sagt að almenningi gefist kostur á að bjóða sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja með því að senda valnefndinni ferilskrá sína. Þetta er villandi, annars vegar að tryggja eigi fagleg vinnubrögð og hins vegar að almenningur geti boðið sig beint fram, þetta hljómar eins og hvert annað lýðskrum. Við vitum að hið opinbera er fulltrúi almennings og það þarf ekki frekari aðkomu að því.

Almennt vil ég segja að fyrir utan það hvernig valið er í stjórnina þá held ég að þetta eignarhaldsfélag, sem felst í þessari nýju stofnun, Bankasýslunni, sé framfaraskref. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra í því að það er rétt að setja þetta í farveg sem er gagnsær til að tryggja fagleg vinnubrögð og byggja upp traust. Þá spyr ég að því hvort við ættum kannski að setja eignaumsýslufélagið líka undir þetta félag, þetta eignarhaldsfélag eigi hlutina eða sjái um hlutina sem eru í nýja eignaumsýslufélaginu, ef það frumvarp verður að lögum, sem allt lítur út fyrir, til að tryggja enn frekar armslengdarsjónarmið, sem kæmi til móts við gagnrýni sem framsóknarmenn hafa verið með og reyndar Borgarahreyfingin líka á það frumvarp — og sjálfstæðismenn auðvitað líka.

Þá dettur mér í hug hvort við ættum jafnvel að ganga skrefinu lengra og færa aðrar fjármálastofnanir ríkisins undir þetta félag eða þessa stofnun. Þá er ég að hugsa um Íbúðalánasjóð og þá kannski sérstaklega Byggðastofnun. Þá erum við í raun og veru komin með allan fjármálamarkaðinn með stjórn af þessu tagi í armslengd frá hæstv. fjármálaráðherra.