137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér hafa allnokkrir þingmenn, einkum úr stjórnarandstöðu en reyndar einnig úr Samfylkingu, komið upp og lýst efasemdum um einstaka þætti þessa frumvarps. Allar eru þær athugasemdir þess virði að þær séu teknar til umfjöllunar og athugunar í þeim nefndum þingsins sem munu fjalla um málið og vona ég innilega að það verði gert.

Það er auðvitað um það að ræða eins og við þekkjum að umfjöllunarefnið, þ.e. eignarhald ríkisins á fjármálastofnunum og raunar allmestum hluta íslensks fjármálakerfis, er viðfangsefni sem fæst okkar vildu hafa í höndunum. Í þeim skilningi er það í sjálfu sér jákvætt að hæstv. fjármálaráðherra skuli koma með frumvarp sem gefur okkur tilefni til að taka umræðu um það hvernig við viljum taka á þeim málum. Ég verð hins vegar að vera nokkuð neikvæðari, hygg ég, en flestir þeir ræðumenn sem hér hafa talað um málið. Ég viðurkenni að við stöndum frammi fyrir verkefni sem við þurfum að leysa með einhverjum hætti sem er eignarhluti ríkisins í þessum fjármálastofnunum. Viðfangsefnið í mínum huga er fyrst og fremst það hvernig við getum losnað út úr því fyrirkomulagi vegna þess að ég held að við eigum ekki og megum ekki sjá fyrir okkur langvarandi eignarhald og afskipti ríkisins af yfirgnæfandi hluta fjármálamarkaðarins. Ég held að það sé ekki hollt og ég held að það muni standa í vegi fyrir því að hér komist aftur á laggirnar fjármálakerfi sem getur virkað eðlilega. Mitt innlegg í umræðuna er kannski fyrst og fremst að árétta mikilvægi þess að ríkið losi sig út úr þessum rekstri eins fljótt og auðið er og ég leyfi mér að hafa efasemdir um að það sé nauðsynlegt að setja á fót sérstaka stofnun til að hafa með höndum það verkefni að halda utan um eignarhlutann meðan þetta ástand er við lýði.

Þegar ég varð þess var að frumvarp þetta væri komið inn í þingið á föstudagskvöld fór ég að velta því fyrir mér hvernig þetta væri hugsað. Fyrstu viðbrögð mín voru að sjálfsögðu þau að hafa áhyggjur af því að hér væri verið að stofnanagera eignarhald ríkisins á fjármálastofnunum sem mér þótti og þykir raunar enn benda til þess að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin sjái fyrir sér að þetta eignarhald á fjármálastofnunum verði við lýði um lengri tíma en ekki skemmri tíma. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að hámarksstarfsemi þessarar stofnunar verði fimm ár ef ekki breytast forsendur. Innan þess tíma getur auðvitað komið til þess eins og frumvarpið er lagt upp að einstakar fjármálastofnanir eða hlutar þeirra verði seldir en ég verð að játa það að þegar ég horfi á stöðuna í dag og fimm ár fram í tímann þá óar mér við því að ríkið verði áfram þátttakandi í fjármálakerfinu í svo langan tíma. Ég held að það að losa um eignarhluta ríkisins ætti að vera miklu meira forgangsmál en ráðgert er með þessu eins og ég les frumvarpið. Ég held um leið að það sé eðlilegra að reyna að finna einfaldari leiðir til að ná þeim markmiðum, sem allflestir hafa tjáð, að losa um eignarhluta ríkisins í þessum fyrirtækjum, að það ætti að finna einfaldari leiðir en að búa til nýja ríkisstofnun með nýrri stjórn og sérstakri valnefnd og öllu því sem þessu fylgir, ég held að verið sé að búa til afskaplega margar og miklar flækjur í kringum þetta.

Ég virði auðvitað þau markmið sem komu fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, að hann vilji með þessu fjarlægja hið pólitíska vald frá bönkunum eins og unnt er og tel reyndar að athugasemdir sem hér hafa komið fram um að það væri eðlilegt og æskilegt að búa til meiri fjarlægð séu athugunar verðar. Ég vara menn hins vegar við því að búa til of mörg flækjustig í þessu ef svo má segja vegna þess að því flóknara sem kerfið verður, því flóknara sem skipuritið verður, því fastara í sessi sem stofnanafyrirkomulagið verður að þessu leyti, þeim mun meiri hætta er á að það dragist að taka þær pólitísku ákvarðanir sem ég tel nauðsynlegt að taka til að losa um ríkishlutinn.

Ég held að málið sé þess eðlis að það þurfi að fá mjög vandlega yfirferð í nefndum þingsins eins og ég sagði áðan. Ég held að í því nefndastarfi sé nauðsynlegt að menn velti fyrir sér öðrum leiðum til að ná þeim viðfangsefnum sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt hér upp og hef alla fyrirvara á því að styðja málið eins og það lítur út. Það slær mig þannig að menn hafi séð viðfangsefni eða vandamál og hafi einfaldlega ákveðið að fara gömlu leiðina að stofna sérstaka stofnun til að sjá um það. Það er allt of algengt og það hefur valdið útþenslu ríkiskerfisins á síðustu árum og áratugum, sama hver hefur verið í stjórn — allir flokkar sem hafa verið við völd eru samsekir í því — tilhneigingin hefur allt of mikið verið sú þegar menn sjá viðfangsefni eða vandamál að þá er úrræðið að búa til nýjar stofnanir, nýjar nefndir, ný ráð til að leysa þau. Ég held að á þeim tíma sem við lifum núna þegar allir eru sammála um að draga þurfi verulega úr umsvifum ríkisins, draga verulega úr kostnaði við ríkisreksturinn, skjóti mjög skökku við að ætla að stofna nýja stofnun. Ég tek undir þær áhyggjur sem komu fram í stuttri ræðu hv. þm. Ólafar Nordal að þó að lagt sé upp með fáa starfsmenn og lítinn kostnað þá þekkjum við Parkinsonslögmálið að slíkar stofnanir hafa tilhneigingu til að hlaða utan á sig, hafa tilhneigingu til að festa sig í sessi og hafa tilhneigingu til að stækka. Mér finnst því nauðsynlegt þegar við göngum til þess verks að reyna að móta það hvernig við tökumst á við viðfangsefnið sem hér liggur fyrir, að við gætum þess að búa ekki til nýjan óþarfan kostnað, búa ekki til nýjar óþarfar flækjur, reyna frekar að koma ríkinu út úr þessu verkefni eins fljótt og auðið er.

Ég vildi að lokum, hæstv. forseti, fagna því sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra um það að eigendastefna fjármálafyrirtækjanna væri á leiðinni. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur tekið einhvern tíma að koma henni saman og móta hana. Ég vildi hins vegar koma þeirri athugasemd á framfæri að ég tel eðlilegt að eigendastefnan komi til umræðu á þingi, að ekki verði aðeins um að ræða plagg eða yfirlýsingu frá fjármálaráðherra heldur fái þingið tækifæri til að fjalla um þetta. Það vill svo til að hér er um að ræða afar mikilvægar ákvarðanir um mótun eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í höndum ríkisins og ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegast að hún komi til umræðu á þinginu, að þingið fái tækifæri til að fjalla um hana og að hinir þjóðkjörnu fulltrúar sem hér sitja hafi tækifæri til að láta í ljós sjónarmið sín í þeim efnum. Smærri mál en það koma til umræðu í þinginu.