137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér fáum við enn eitt frumvarp til laga sem nauðsynlegt er að setja í kjölfar bankahrunsins. Rétt er að rifja það upp að í kjölfar bankahrunsins í haust ætluðu menn að láta hlutina ganga mjög hratt fyrir sig og höfðu trú á því að þetta mundi ganga hratt yfir. Fyrsta skilanefndin sem var skipuð var skipuð til 30 daga. Skilanefnd númer tvö var skipuð til 60 daga. Skilanefnd númer þrjú var skipuð til 90 daga. Á þeirri viku sem þarna leið á milli áttuðu menn sig á því að þetta hefði kannski verið óeðlilega skammur tími sem þeir ætluðu sér til úrvinnslu á bankahruninu. Nú er svo komið að ef áætlanir um skil milli gömlu og nýju bankana ganga eftir og þau skil verða eigi síðar en 17. júlí næstkomandi þá mun þetta enda í heilli meðgöngu eða rúmlega níu mánuðum, yfir 270 dögum í stað þeirra 30 sem fyrst var ætlað.

Það er ekki aðeins að þetta hafi tekið miklu lengri tíma og sé orðið dýrara og hafi reynst flóknara en upphaflega var áætlað heldur er viðbúið að eignarhald ríkisins verði jafnvel enn umsvifameira ef hlutir í sparisjóðum bætast við eins og verið er að greiða fyrir með frumvarpi sem nú er til meðferðar í þinginu um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki til þess að auðvelda það að ríkið geti komið þar að sem stofnfjáreigandi eða til þess að greiða inn, styrkja eigið fé sjóðanna.

Það er líka ljóst að þær fjármálastofnanir sem hér um ræðir verða í eigu ríkisins enn um sinn. Við munum það sem fylgdumst með umræðunni í haust að markmiðið var að taka við bönkunum, selja þá strax, losa sig við þá strax. Menn hafa margir sýnt áhuga á því og það hefur komið fram hér í umræðunni í dag að nauðsynlegt væri að ríkið losaði sig úr eignarhaldinu sem allra fyrst. En ég held að við verðum bara að viðurkenna að ansi lítill áhugi er á því að fjárfesta í íslenskum fjármálastofnunum nú um stundir. Það hefur reynst svo að kröfuhafar sem nefndir voru sem eignaraðilar að nýju bönkunum hafa ekki reynst jafnáhugasamir og margir ætluðu. Því er það, eins og ég sagði áðan, að ljóst er að þessar fjármálastofnanir munu enn um sinn verða í eigu ríkisins. Því er mjög svo tímabært að formgera þetta eignarhald eins og hér er gert ráð fyrir en jafnframt gera það aðeins til tiltekins tíma. Hér er sólarlagsákvæði til fimm ára um að þessi Bankasýsla eigi að hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum eftir að lögin taka gildi.

Í mínum huga er skýr eigendastefna algjör grunnur að starfsemi Bankasýslunnar. Ég hef kallað eftir eigendastefnu ríkisins varðandi bankana alveg frá hruninu. Innihald slíkrar stefnu er gríðarlega mikilvægt eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan. Það hlýtur að sjálfsögðu að koma til umræðu á þinginu hvert það er og tek ég undir orð þingmannsins að því leytinu til.

Ég vil nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta máli og tel að eigi að vera í slíkri eigendastefnu. Ég hef nefnt það áður að ég tel mjög brýnt að því stefnumiði stjórnvalda verði framfylgt að auglýst verði eftir bankastjórum og lykilstjórnendum þeirra fjármálastofnana sem nú eru reknar á ábyrgð ríkissjóðs og skattgreiðenda. Ég hef líka kallað eftir því að launastefnan í þessum fjármálastofnunum sé skýr og að launajafnrétti verði tryggt, en launamisrétti viðgekkst því miður og jókst á síðustu árum í bönkunum áður en þeir hrundu.

Það er líka mjög mikilvægt að í slíkri eigendastefnu verði tekið á því hvernig koma megi fram jafnræði í starfi þessara fjármálastofnana án þess þó að ganga þvert gegn samkeppni, en jafnræði í starfsemi sem rekin er á kostnað sameiginlegra sjóða skattborgaranna hlýtur að vera grundvallarkrafa.

Loks hlýtur að verða að taka til þess í eigendastefnu hvort og þá hversu stóran hlut ríkið ætti að eiga í einum eða fleiri stóru bankanna til frambúðar, þ.e. til lengri tíma en þeirra fimm ára sem hér er fjallað um.

Þetta eru nokkur atriði sem ég tel að þurfi að taka á og reyndar gæti ég nefnt ótal mörg önnur.

Við þessa umræðu hefur verið minnst á nokkrar greinar í frumvarpinu, einkum þó hvernig staðið skuli að vali í stjórn Bankasýslunnar og sýnist þar sitt hverjum. Ég geri engar athugasemdir, hvorki við það fyrirkomulag sem hér er nefnt né annað það sem hér hefur verið nefnt í umræðunni. Nefndin mun að sjálfsögðu bara taka það til athugunar í umfjöllun sinni.

Ég fagna hins vegar því nýmæli sem er að finna í 7. gr. um að almenningi gefist kostur á því að bjóða sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja með því að senda valnefndinni ferilskrár sínar. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að í okkar litla skólabræðrasamfélagi þar sem allt er rígbundið fjölskyldu- og vinaböndum hefur oft reynst erfitt fyrir utanaðkomandi fólk, fólk sem t.d. hefur verið við störf erlendis, að banka upp á og leggja inn umsóknir um störf. Menn hafa einhvern veginn ekki fundið dyrnar að því, ekki einu sinni í þessu bankakerfi okkar núna eins og það er rekið. Ég hef sem þingmaður, og ég reikna með að aðrir hv. þingmenn hafi orðið varir við það líka að menn hafa kvartað undan því að ekki hafi verið svarað umsóknum um störf eða stöður í bankakerfinu. Ég held því að þetta nýmæli sé til góðs og ég mótmæli því að það sé lýðskrum, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kallaði það hér áðan. Ég tel að þetta sé bara nauðsynleg leið til þess að tryggja að allir eigi jafnan aðgang að því að sækja um störf og vekja athygli á því sem þeir vilja leggja fram.

Hér hefur verið talað um félagaformið. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi að þessum eignarhlutum ríkisins ætti að koma fyrir í opinberu hlutafélagi í ohf.-formi. Ég verð að segja að ég átta mig ekki á því hvers vegna eignarhlut ríkisins í þessum fjármálastofnunum ætti að koma fyrir í félagi með takmarkaða ábyrgð. Ég skil ekki alveg hver tilgangurinn er. En eins og hér hefur verið bent á er eðlilegt að það verði tekið til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd sem mun fá þetta mál til umfjöllunar.

Ég vil vekja athygli á öðru nýmæli sem er að finna í 8. gr. frumvarpsins og við höfum sem betur fer verið að sjá svolítið af að undanförnu, þ.e. að ráðherrar geri Alþingi grein fyrir starfsemi sem þeir fara með, hér Bankasýslunnar, en í 8. gr. er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra fái ítarlega skýrslu frá Bankasýslunni fyrir 1. júní ár hvert. Í framhaldi af því geri fjármálaráðherra Alþingi grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og hvernig til hefur tekist varðandi meðferð eignarhlutanna og hverjar framtíðaráherslur ríkisins eru, sem sagt eigendastefnuna, hvernig hún hefur virkað og hver framtíðaráformin eru.

Ég verð að vekja athygli á því að þessar dagsetningar ríma ekki vel við starfsáætlun Alþingis og það er eitt af þeim atriðum sem hv. viðskiptanefnd mun væntanlega skoða þegar þar að kemur.

Ég vil enn fremur vekja athygli á einu atriði sem ekki hefur komið til umræðu hér í dag og það er síðasta málsgrein 1. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um að Bankasýslu ríkisins sé heimilt að setja á fót og fara með eignarhlut ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum hennar. Hér er um að ræða dótturfélög ný og gömul, dótturfélög bankanna þess vegna. Ég vil nefna félög eins og kreditkortafyrirtækin og innheimtufyrirtækin sem eru í eigu ríkisbankanna núna en eru einhvern veginn utan við það kerfi engu að síður sem sjálfstæð hlutafélög. Ég tel mikilvægt að þeir eignarhlutar verði einnig hluti af umsjón og eigendastefnu sem mörkuð verður í þessu félagi.

Í hv. viðskiptanefnd höfum við í allan vetur farið yfir stöðuna í bankakerfinu. Það er mjög mikilvægt að við það verk sem fram undan er — í mínum huga er mjög mikilvægt að ekki sé verið að endurreisa þetta gamla bankakerfi okkar heldur er verið að endurreisa íslenskt efnahagslíf á heilbrigðari grunni en áður var. Til þess þurfum við heilbrigt fjármálakerfi og það er ríkisins, eins og hér hefur verið lagt fram, að stuðla að því nú þegar ríkið, ríkissjóður, skattgreiðendur hafa fengið fjármálastofnanirnar allar í fangið.

Ég tel eðlilegt, eins og hér hefur verið nefnt, að þetta frumvarp verði sent frá viðskiptanefnd til hv. efnahags- og skattanefndar til umsagnar. Þar muni gefast færi á því að bera saman vinnu þeirrar nefndar að eignaumsýslufélaginu og því sem hér er lagt til enda þótt um gjörólík verkefni sé að ræða.

Ég vil að lokum geta þess að hv. viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd hafa unnið mjög vel saman, ekki bara núna heldur einnig fyrr í vetur enda svo sem um svipuð og skyld verkefni að ræða. Það háttar nú svo vel til að einir þrír eða fjórir nefndarmenn sitja í báðum nefndunum þannig að þar hafa upplýsingar og vinna nýst í rauninni mjög vel og ekki verið um mikinn tvíverknað að ræða sem betur fer.

Ég vona bara að viðskiptanefnd sem hefur ansi mikið á sínum herðum eins og reyndar fleiri nefndir þingsins fái góðan tíma til þess að fara í þetta mál og að við getum lokið þessu núna á sumarþinginu.