137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir hans orð. Ég er algerlega sammála því sem hann segir og þetta hefur lengi verið mikið áhugamál hjá mér. Ég hef rætt þetta töluvert við Nýsköpunarmiðstöðina og ég veit að hjá þeim er mikill áhugi á að veita þessa þjónustu og þeir reyna að veita hana eins og þeir mögulega geta. Ég veit að ráðgjafar hjá þeim hafa bókstaflega verið að drukkna á undanförnum vikum og mánuðum við að reyna að einhverju leyti að koma til móts við einyrkja og lítil fyrirtæki, en sú ráðgjöf hefur ekki verið í skipulegu formi hjá þeim. Með þessu væri verið að veita þeim a.m.k. umboð til að veita þessa þjónustu á mun markvissari hátt en þeir hafa gert hingað til. Það skiptir líka mjög miklu máli — eins og við sjáum í dæmunum sem ég nefni um hvernig lönd hafa verið að styðja við fyrirtæki í erfiðleikum þá er þetta að miklu leyti upplýsingagjöf. Það er verið að taka saman upplýsingar á einn stað, jafnvel á vefsíðu, þannig að við erum kannski ekki að tala um sérstaklega mikinn kostnað. Þeir sem eru í örðugleikum geta farið á vefinn eða jafnvel fengið bæklinga og farið í gegnum þetta sjálfir. Ég veit að hluti af þessu verkefni sem Evrópusambandið vann — þeir settu einmitt upp punkta sem voru þessi viðvörunarmerki í rekstri því að hugmyndafræðin á bak við þetta er náttúrlega sú að reyna að hjálpa fyrirtækjum áður en þau eru komin í þrot þannig að mögulegt sé að stoppa það af og fyrirtæki geti þá komið sér á fætur aftur.

Ég vona svo sannarlega að þetta verði eitt af þeim þingmannamálum sem við getum afgreitt á þessu þingi.