137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur greinargóð svör við fyrirspurn minni. Ég held að það sé mjög heppilegt að þessu verði fundinn staður sem verkefni hjá Nýsköpunarmiðstöð og það sé þá ráðgjöf til fyrirtækja varðandi rekstur. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna, sem vísað er til í þessu frumvarpi, er verkefni sem er ætlað að veita heimilunum aðstoð til sjálfshjálpar. Það byggir á því að gera fólki kleift að taka sín fjármál í eigin hendur í stað þess að lenda í svo alvarlegum vanskilum að til jafnvel gjaldþrota komi.

Ég tel mikilvægt að þetta verði verkefni innan Nýsköpunarmiðstöðvar. Annars mætti líta úr fyrir að þetta væri til vitnis um að við teldum bönkunum ekki treystandi til þess að sinna fjármálalegum þætti þessara fyrirtækja því að þarna er líka um ákveðna ráðgjöf að ræða varðandi þætti í rekstri fyrirtækja sem ekki endilega lúta að fjármálum heldur líka markaðssetningu og fleiru slíku sem ég held að sé mjög gagnlegt og mikilvægt eins og atvinnuástandið er í dag. Ég hvet til þess að ríkisvaldið veiti bönkunum mikið aðhald varðandi meðhöndlun viðskiptavina sinna en ýti jafnframt undir traust á kerfinu, því að ef við endurvinnum ekki traust almennings og fyrirtækja á bankakerfinu eigum við ekki bjarta framtíð fyrir höndum.