137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil óska Borgarahreyfingunni og þeim fjórum þingmönnum til hamingju með þetta frumvarp sem þeir leggja fram.

Mig langar að spyrja tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Er þetta frumvarp lagt fram með það í huga að þjóðaratkvæðagreiðslan, eins og kom fram í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar, sé ráðgefandi fyrir þingið eða að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að ráða för og þá þurfum við að fara í breytingar á stjórnarskránni?

Í öðru lagi: Í ljósi þess hvernig hv. þingmaður Borgarahreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, tók á málum í kjörbréfanefnd í upphafi þings þar sem fram hafði komið kæra vegna misvægis atkvæða t.d. í Suðvesturkjördæmi, má þá skilja 8. gr. þessa frumvarps í þá veru að það sé beggja blands, ef má orða það svo, sem stendur, með leyfi forseta, efst á bls. 3: „Um framkvæmd að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, talningu atkvæða og meðferð ágreiningsseðla fer samkvæmt lögum um framboð og kjör forseta Íslands,“ — sem er eitt atkvæði, einn maður — „nr. 36/1945, og eftir því sem við getur átt lögum um kosningar til Alþingis.“ Eiga þingmenn Borgarahreyfingarinnar við annaðhvort eitt atkvæði, einn maður eða hugsanlega líka misvægi atkvæða eftir kjördæmum? Mér finnst 8. gr. hljóma þannig að ég átta mig ekki alveg á af hverju menn koma með þennan varnagla í síðustu setningunni „og eftir því sem við getur átt lögum um kosningar til Alþingis“. Ég óska eftir því að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir svari þessum spurningum.